Tilkynningar um raftjón streyma inn til RARIK

19.05.2017 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Tilkynningar um tjón á raftækjum streyma inn til RARIK eftir að mjög há spenna fór inn til notenda sums staðar á Suður- og Austurlandi á miðvikudagsmorgun. Forstjóri RARIK segir að mest tjón virðist hafa orðið í kringum Kirkjubæjarklaustur. RARIK hafi víða sett upp búnað til að taka straum af í miklum spennusveiflum en slíkur búnaður var ekki kominn í gagnið á Klaustri.

Vandræðin hófust þegar kerleki varð í álverinu  á Grundartanga. Þegar stór raforkunotandi dettur út kemur einskonar högg á dreifikerfi Landsnets og það skiptist upp í svokallaðar eyjar eða minni svæði. Innan sumra þessara svæða eru stórar virkjanir sem framleiða meira rafmagn en notað er í kring og einnig stórnotendur sem þurfa að draga úr notkun. Allt þetta veldur því að spennuflökt verður í skamma stund meðan kerfið stillir sig af. Landsnet hefur fullyrt að væri byggðalínan öflugri yrðu slíkar uppákomur fátíðari.

Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, segir greinilegt að spennuhækkunin á miðvikudagsmorgun hafi verið veruleg. „Í kjölfarið höfum við verið að fá upplýsingar frá okkar viðskiptavinum um tjón. Við vorum búnir að fá 16 tilkynningar með formlegum hætti til okkar í gær en í augnablikinu erum við komnir með 33 og þær halda áfram að streyma inn. Mest áberandi eru sjónvörp, eitthvað af varmadælum, hleðslutækjum og ýmsum búnaði,“ sagði Tryggvi Þór þegar fréttastofa ræddi við hann rétt fyrir klukkan 10 í morgun.

Svo virðist sem mest tjón hafi orðið í kring um Kirkjubæjarklaustur, en einnig á Héraði í kringum Egilsstaði. Einnig varð tjón á Austfjörðum í Reyðarfirði og í Neskaupstað. Tryggvi segir að RARIK geti sett upp svokallaða yfirspennuvörn en ekki sé raunhæft að einstaklingar geri slíkt. Vegna þess hve byggðalínan er veik og spennuflökt orðið algengt hafi RARIK tekið til sinna ráða. „Vegna þess hvernig ástand flutningskerfisins er þá höfum við verið að setja upp búnað og erum að setja upp búnað og stilla þannig að við rjúfum frekar hjá notendur heldur en að þeir fái spennuhöggið inn á sig. Slíkur búnaður er kominn á stóran hluta á Austurlandi en hann var ekki kominn í gagnið á Klaustri því miður.“

Hann segir erfiðara að útskýra af hverju tjón varð í kringum Egilsstaði. Þar sé búnaður sem rýfur straum en verið sé að greina hvað gerðist nákvæmlega. RARIK þurfi að finna meðalveginn í því hvort hleypa eigi litlum spennusveiflum inn á kerfið eða rjúfa straum. Rafmagnsleysi valdi yfirleitt meira og víðtækara tjóni en spennusveiflur. RARIK hafi þó undanfarið lækkað mörkin þannig að rafmagn sé nú tekið af fyrr til að minni spennusveiflur sleppi til notenda.

RARIK hvetur alla sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni vegna spennuflökts að fylla út þar til gert eyðublað á heimasíðu fyrirtækisins.

Tryggvi veit ekki til þess að teljandi tjón hafi orðið á kerfi RARIK. Hjá Landsneti fengust þær upplýsingar að eldingavarar hafi eyðilagst í tengivirkinu á Stuðlum í Reyðarfirði. Óttast var að jarðstrengur milli Stuðla og Hryggstekks í Skriðdal hefði skemmst en prófun leiddi í ljós að strengurinn er óskemmdur. 

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans segir að flökt á rafmagni hafi valdið því að búnaður Símans bilaði á þremur stöðum; Ásum, Hnausum og á Kirkjubæjarklaustri. Bilunin hafi þó ekki haft áhrif á þjónustuna á þessum stöðum og búið að skipta honum út.