Tilboðum keppinauta Magma um kaupin á hlut Geysis Green Energy í HS Orku var lekið til Magma. Þetta segja heimildarmenn fréttastofu. Umhverfisráðherra undirbýr lagafrumvarp sem gerir þá kröfu á Magma að selja stærstan hluta HS Orku. Á seinni hluta síðasta árs hófust þreifingar um sölu á helmingshlut Geysis Green Energy í HS Orku. Þá sýndu nokkrir aðilar áhuga á að kaupa hlutinn en Íslandsbanki hafði umsjón með sölunni. Samkvæmt heimildum fréttastofu lýsti bankinn því yfir við áhugasama kaupendur að söluferlið yrði opið. Það kom því flatt upp á þá að frétta það nú undir vor að kaupin væru nánast frágengin. Bankinn leyfði þremur aðilum að taka þátt í lokuðu söluferli.

Viðskiptablaðið hefur greint frá því að Norðurál var einn þeirra og samkvæmt heimildum fréttastofu gerði Framtakssjóður lífeyrissjóðanna óformlegt tilboð. Hæsta tilboðið mun ekki hafa komið frá Magma. Fréttastofa hefur ekki upplýsingar um hvers vegna hæsta tilboði var ekki tekið. Þá hefur fréttastofa heimildir fyrir því að Magma hafi ávallt fengið að vita hvað keppinautarnir buðu í HS Orku hlutinn.