Til átaka kom á milli lögreglu og mótmælenda á Austurvelli í dag þar sem fólk var saman komið til að mótmæla brottvísunum og aðbúnaði hælisleitenda.Tugir lögreglumanna vöktuðu mótmælin. Svo virðist sem að upptök stimpinganna megi rekja til tilraunar mótmælenda til að koma upp tjaldi.
Með mótmælunum vill hópurinn ná til íslenskra stjórnvalda og vekja athygli á þeim ómannúðlegu aðstæðum sem hælisleitendur búa við, að því er segir á Facebook-síðunni Refugees in Iceland. Þau vilja að hver umsókn verði tekin til efnislegrar meðferðar og að umsækjendur um alþjóðlega vernd fái að stunda vinnu á meðan þeir bíða úrlausnar sinna mála. Þá vilja þeir betri aðgang að heilbrigðisþjónustu, bæði vegna líkamlegra og andlegra veikinda.
Myndskeið af átökunum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.