Búast má við tíðum gosum í Grímsvötnum næstu áratugina og nær goslotan líklega hámarki um miðja öldina. Ekkert eldfjall hefur gosið jafn oft á sögulegum tíma á Íslandi.

Grímsvatnaaskjan er stórbrotið náttúrufyrirbæri. Undir jöklulhellunni er öflugt jarðhitakerfi sem bræðir ísinn í sífellu og með reglulegu millibili brýst vatnið undir jökulstífluna svo úr verða hlaup. En Grímsvötn er líka virkasta eldstöð Íslands, síðustu 800 árin hefur gosið þar um sextíu sinnum. Að meðaltali þýðir það eitt gos á hér um bil þrettán ára fresti.

„Þetta meðaltal segir ekki alla söguna því stundum eru goshlé og þetta gengur í bylgjum, bylgjan er þetta 130 ár þannig að í svona 40 til 80 ár er mikil gosvirkni og síðan liggur hún niðri þess á milli,“ segir Helgi Björnsson, jarðeðlisfræðimngur.

Það var rólegt í Grímsvötnum lengst af tuttugustu öldinni en undanfarin ár hefur gosið þar með reglulegu millibili. Helgi á von á því að það muni halda áfram

„Það kom út úr þessum rannsóknum og er nokkuð sem við teljum að sé að rætast að það verði núna aukin gosvirkni í Grímsvötnum alveg fram á miðja þessa öld og nái kannski hámarki um miðja öldina en síðan taki að draga úr henni,“ segir Helgi.

Síðast gaus í Grímsvötnum árið 2004 en það gos var ekki mjög öflugt. Árið 1998 varð hins vegar þar stórt gos í Grímsvötnum. Því fylgdu gífurlegar sprengingar í sjálfum gígnum en öskufall var lítið í byggð. 1983 varð svo fyrsta gosið í Grímsvötnum frá 1938. Ekkert þessara gosa var nálægt því eins öflugt og það sem nú stendur yfir.