Þýsk hjón handtekin með haug af skothylkjum

10.08.2017 - 17:03
Mynd með færslu
 Mynd: NRK
Norska lögreglan lagði hald á 2,6 tonn af tómum skothylkjum í húsbíl í nyrðri þrændalögum á mánudagskvöldið. Eigendurnir, þýsk hjón á sjötugsaldri, voru handteknir og úrskurðaðir í fjögurra vikna gæsluvarðhald.

Þeir gátu ekki gefið skýringar á þessu framferði sínu en virðast hafa haft töluvert fyrir því í að safna skothylkjunum saman. Þau höfðu farið á yfir þrjátíu skotsvæði vítt og breitt um Noreg til að verða sér úti um góssið. Skothylkin eru ekki mikils virði en dágótt skotsilfur fæst þó fyrir allt þetta magn. Það er metið á 52.000 norskar, jafnvirði nærri 700 þúsund íslenskra króna.   

Margrete Torseter hjá norsku lögreglunni segir við Norska ríkissjónvarpið að farið hafi verið fram á svo langt gæsluvarðhald vegna ítrekaðra brota Þjóðverjanna.  

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV