Gísli Gíslason þyrluflugmaður sinnir ýmiskonar verkefnum í starfi sínu. Í fyrradag flaug hann, ásamt Jóni Kjartani Björnsyni flugstjóra, með sex iðnaðarmenn út í Þrídranga við Vestmannaeyjar. Dagurinn var einstaklega bjartur og fallegur og Gísli náði einstöku myndskeiði í flugferðinni.
Gísli er þyrluflugmaður hjá Norðurflugi. Hann birti myndskeiðið á Facebooksíðu sinni.
Verið var að fljúga með rafvirkja út í drangann, til að yfirfara vitann, og iðnaðarmenn til að mála hann og taka í gegn. Flogið var með þá út í drangann í fyrradag, þeir skildir þar eftir yfir nótt, og svo sóttir aftur í gær, að sögn Gísla.
„Þetta var alveg geggjaður dagur," segir Gísli. „Það voru háhyrningar, fjölskylda, syndandi allt um kring og þrír hræddir selir að reyna að flýja. En háhyrningarnir virtust vera pakksaddir og létu þá alveg í friði."