„Ég nota efnivið sem tengist heimilinu og fortíðinni. Þetta eru efni sem ég man eftir úr barnæsku, gömul efni sem voru mögulega í tísku og efni sem eru mjúk og tengjast oft sófum eða rúmum,“ segir myndlistarmaðurinn Margrét Helga Sesseljudóttir sem sýnir skúlptúra í Ásmundarsafni.
Sýningin ber titilinn Þykjustunni eftirvænting og er fjórða sýningin í Innrásasyrpu Ásmundarsafns, þar sem listamenn vefa verk sín inn í rými og kost safnsins.
„Þetta er innsetning á tveimur hæðum í safninu, niðri og uppi í Kúlunni. Ég er að vinna með andrúmsloft og skapa sviðsmyndir innan um verk Ásmundar. Verkin hans eru sem sagt þátttakandi í minni innsetningu,“ segir Margrét Helga. Hún stundaði meistaranám í myndlist í Dublin og í Listaháskóla Íslands og vinnur mestmegnis með skúlptúra og innsetningar.
Rýmið réð ferðinni í sköpun innsetninganna tveggja að sögn Margrétar. „Þau eru algjörlega miðuð út frá þessu húsi, þannig að ég var búin að búa til verkin að einhverju leyti en þau urðu til bara hérna inni, ég gerði þau hér í safninu.“
Vísindaskáldskapur
Þau birtast viðtakendum sem eitthvað framandi, efnisnotkun er óvenjuleg og þættir í verkunum minna á geimferðir. „Verkið sem er niðri er meira tengt einhverju svona eins og vísindaskáldskap og einhverju trúarlegu og mikilfenglegu af því að þetta er svo rosalega glæsilegt og klassískt rými með gömlu skúlptúrunum hans Ásmundar á meðan meðan Kúlan er mjög svona sérstakt rými. Þar gerði ég innsetningu sem er meira persónuleg og tengist svefnherbergi en ég sé bæði verkin, báðar innsetningarnar, sem heild.“
Þykjustunni eftirvænting stendur til 6. janúar. Nánari upplýsingar má finna hér.