Í síðasta pistli sínum í Víðsjá á Rás 1 tekur Ragnhildur Hólmgeirsdóttir upp gamla klassík og spyr hvort Íslendingar þurfi ekki að fara taka upp þýðingar Sveinbjörns Egilssonar á Hómerskviðum.
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir skrifar:
Á síðasta ári kom út í hinum enskumælandi heimi ný þýðing á gömlu bókmenntaverki sem sló rækilega í gegn og vakti mikla athygli á alþjóðavísu. Þýðandinn heitir Emily Wilson og verkið er Ódysseifskviða. Athyglin sem þetta framtak vakti var að einhverju leyti fyrirsjáanleg því Ódysseifskviða er jú eitt frægasta og virtasta bókmenntaverk sögunnar. Á hinn bóginn verður því ekki neitað að verkið er einhvers staðar í kringum 2800 ára gamalt og því varla neitt sérstaklega nýtt og spennandi. Ofan á það bætist að Hómerskviður hafa verið þýddar á ensku hvorki meira né minna en 60 sinnum frá því snemma á 17. öld og síðustu tuttugu ár hefur að meðtali komið út ný þýðing á tveggja ára fresti. Það mætti því spyrja sig hvort verkið megi ekki teljast fullþýtt á enska tungu, og hvort það sé nokkuð nýtt um það að segja yfirhöfuð.
Útdautt tungumál
Það eru líklega fá bókmenntaverk sem er erfiðara að þýða en Hómerskviður. Þær samanstanda af tveimur ólíkum hlutum, Ilíonskviðu og Ódysseifskviðu. Sú fyrri segir frá nokkrum örlagaríkum vikum í umsátrinu um Tróju en sú seinni frá síðasta hlutanum á tíu ára ferð Ódysseifs heim til sín úr sama stríði. Hómerskviður eru skrifaðar á forngrísku, útdauðu tungumáli sem flestum veitist afar erfitt að læra. Það er því enginn í öllum heiminum sem getur lesið þetta verk á frummálinu sem móðurmáli sínu. Til að bæta gráu ofan á svart þá er málið sem Hómerskviður eru skrifaðar á algjörlega sér á báti og líkist ekki neinu sem raunveruleg forngrísk manneskja gæti nokkru sinni hafa talað. Þær eru skrifaðar á sérstakri blöndu af mállýskum frá stóru svæði og nokkrum öldum. Þær eru einfaldlega skáldamál sem allir Forn-Grikkir gátu notið sameiginlega, án þess að nokkur beinlínis ætti það, allir þekktu það og skildu því þetta var mál Skáldsins með stóru S-i. Þetta er menningarsögulegt samhengi sem enginn þýðandi getur endurskapað með nokkru móti.
Hulinn uppruni
Það er líka ráðgáta hver samdi Hómerskviður og um það hafa fræðimenn deilt í nokkurn veginn 250 ár. Í dag eru flestir sammála um að Hómerskviður hafi orðið til á sérstaklega gjöfulum tímamótum munnlegrar geymdar og ritmenningar, þegar einn eða fleiri einstaklingar með aðgang að báðum þessum heimum bjuggu til eitthvað alveg einstakt, eitthvað sem hefur náð að fanga hug lesenda í næstum því þrjú þúsund ár frá sköpun þess. En þetta er samt allt ákaflega óljóst og það eru ekki einu sinn allir sammála um hvort hlutarnir tveir, Ilíonskviða og Ódysseifskviða, séu yfirhöfuð eftir sama höfund. Þessi óljósu mörk munnlegrar geymdar og ritaðs höfundarverks hafa líka fengið margan fræðimanninn til að reyta hár sitt og eyða starfsævinni í að tæta kviðurnar í sundur, í von um að losna við síðari tíma viðbætur, þar til þeir væru komnir með kjarnann, hinn ómengaða og ófalsaða Hómer.
Róttæk þýðing
Ein af ástæðum þess að þýðing Wilson vakti alla þessa athygli er sú að hún er kona, þar sem rannsóknir og þýðingar á Hómer eru mikið karlaveldi. En eins og Wilson hefur sjálf verið ötul við að benda fólki á var Ilíonskviða nýlega þýdd á ensku af annarri konu, Caroline Alexander, og ef litið er til viðtökusögu Hómerskviða í Vestur-Evrópu, þá var franska fræðikonan Anna Dacier á 18. öld meðal áhrifaríkustu þýðenda þessa mikla bókmenntaverks. Önnur skýring á þeirri athygli sem þýðing Wilson hlaut er sú að hún er bæði róttæk og nútímaleg. Í þýðingunni lagði Wilson sérstaka áherslu á að draga fram það hversdagslega ofbeldi sem felst í þrælahaldi í heimi Hómerskviða. Hún veltir líka fyrir sér ólíku hlutskipti karla og kvenna, og þeim siðferðislegu álitamálum sem upp koma þegar ferðalangurinn Ódysseifur heimsækir fjarlæg lönd og ókunnugar þjóðir, og fundirnir enda í vopnuðum átökum. Það er aldrei skýrt í Ódysseifskviðu hvort aðalpersónan er hetja eða skúrkur.
Er einhver þýðing hlutlaus?
Þetta er þýðing sem talar sterkt inn í menningu samtíma okkar, þegar við glímum við óteljandi erfið siðferðisleg álitaefni, sem við þurfum að vega og meta út frá ólíkum sjónarhornum. En má þetta? Má þýða bókmenntaverk frá 8. öld fyrir Krist á þann hátt að það eigi sérstaklega vel við tíðarandann við upphaf 21. aldar? Þær vangaveltur kalla líka á spurninguna um hvort fyrsta enska þýðingin, frá 1611, sé eitthvað hlutlausari eða lausari undan menningu síns samtíma. Það er auðvitað hægt að leggja hlutlægt mat á gæði þýðinga með því að athuga hversu vel þær fylgja frumtextanum. En, ef þýðingin á að ná til lesenda í nýju menningarsamhengi, verður þýðandinn alltaf að taka einhverjar ákvarðanir sem breyta heildaryfirbragði textans. Þegar bilið sem þýðandinn þarf að brúa er jafn breitt og í tilviki Hómerskviða í nútímanum geta tvær þýðingar orðið jafn ólíkar og nótt og dagur, ekki síst ef önnur þeirra er frá 17. öld og hin frá þeirri 21.
Stöðug endurnýjun
Þá er kannski orðið réttara að tala um ólíkar útgáfur frekar en ólíkar þýðingar. En hvað þá um frumtextann, sem þetta hlýtur allt saman að snúast um? Frumtextann, sem sumir fræðimenn tættu í sundur með málvísindi og orðabækur að vopni í leit að frumtextanum innan frumtextans. Ef eitthvað er þá er hin aldalanga þýðingarsaga Hómerskviða í undarlegu samræmi við uppruna þeirra sem enginn getur almennilega skorið úr um hvort sé munnlegur eða ritaður. Hómerskviður eru eins og snjóbolti sem rúllar niður hæð og með hverri veltunni bætast við ný lög af merkingu, nýjar útgáfur sem hafa allar sitt eigið gildi.
Framlag Íslands
Þökk sé einum ötulum manni á 19. öld þá eiga Íslendingar eitt lag í þessum stóra og mikla snjóbolta. Sú þýðing er eftir hinn fjölhæfa fræðimann Sveinbjörn Egilsson sem fæddur var árið 1791. Þessi eina íslenska þýðing á uppruna sinn í grískukennslu Sveinbjarnar við Lærða skólann, og er í óbundnu máli. Hún stendur fyllilega fyrir sínu sem vandað bókmenntaverk, þótt Sveinbjörn sjálfur hafi alltaf ætlað að bæta um betur og þýða Hómerskviður upp á nýtt yfir á hinn íslenska bragarhátt fornyrðislag. Sveinbjörn hafði skýra sýn á það hvernig best væri að gera kviðurnar aðgengilegar fyrir sinn samtíma og sótti bæði innblástur í Íslendingasögurnar, Eddukvæði og íslenskt alþýðumál. Þess vegna geta Íslendingar í dag lesið 2800 ára gamlar sögur frá Grikklandi, þar sem hetjunum er lýst eins og Gunnari á Hlíðarenda, en alþýðufólk og aukapersónur tala eins og landshornaflakkarar gerðu á æskuslóðum Sveinbjarnar nálægt aldamótunum 1800, og verður þetta að teljast mjög frumleg lausn, og stórkostleg viðbót við Hómersarf heimsins.
Hómerskviður eru verk sem hægt er að þýða á óteljandi vegu og þær halda áfram að ganga aftur í endurgerðum og aðlögunum, bókum og kvikmyndum. Þær eru svo alltumlykjandi að flestir kannast við efni þeirra, án þess þó að hafa nokkru sinni lesið þær. Þær geta talað ótal röddum, hvort sem það er 18. aldar franska, sjónarhorn feminísma og fjölmenningar á 21. öld, eða 19. aldar íslenska með Íslendingasagnaívafi. En ef Bretar og Bandaríkjamenn geta þýtt Hómerskviður upp á nýtt á tveggja ára fresti þá vaknar sú spurning hvort Íslendingar geta ekki sett sitt viðmið við tvær aldir.
Víðsjá þakkar Ragnhildi Hólmgeirsdóttur fyrir hennar fróðlegu pistla á síðustu misserum.