Lísabet Guðmundsdóttir, fornleifafræðingur, segir að þúsundir minjastaða á Íslandi séu að fara í sjóinn mun hraðar en talið var vegna loftslagsbreytinga. Víða annars staðar á Norðurlöndum hafi verið settir upp sjóðir til að fjármagna eftirlit með fornminjastöðum vegna þessarar hættu en ekkert slíkt er til hér á landi. Reynt hafi verið að vekja athygli stjórnvalda á þessari stöðu án árangurs.

Mikil ógn steðjar að heimskautasvæðum

Lísabet sagði frá rannsóknum sínum á viðarnotkun á Grænlandi í hádegisfyrirlestri í Þjóðminjasafninu. Rannsóknin heitir Stokkar og steinar og er hluti af stærra verkefni. Stór söfn viðarleifa eru til á Grænlandi og er varðveisla viðarins ótrúlega góð vegna sífrerans. Lísabet segir að ekki sé víst að það verði áfram. 

„Þegar maður er að vinna á þessum heimskautasvæðum þá er bara mjög mikil ógn sem steðjar að núna. Loftslagsbreytingar eru að hafa mjög mikil áhrif og hafa oft mun meiri áhrif á þessi heimskautasvæði heldur en víða annars staðar. Bæði það að þessi sífreri, hann er að þiðna sem þýðir í rauninni að allar þessar minjar sem ég hef aðgang að í dag, þær munu hverfa, þær munu rotna eins og þær hafa gert hérna á Íslandi.“

Fjármunir til að fylgjast betur með 

Loftslagsbreytingarnar hafi orðið til þess að mun öflugri stormar fari yfir oftar og við það gengur á minjar við strandlengjuna.    

„Og þessar minjar á heimskautasvæðunum eru við strandlengjuna og þetta er bara að hverfa. En stjórnvöld eru að taka við sér á Norðurlöndunum, sérstaklega í Noregi og svo hefur Carlsberg foundation í Danmörku verið að styrkja rannsóknir á Grænlandi og þetta eru bara rannsóknir til þess að fylgjast með þessum breytingum sem eru að eiga sér stað. Þetta eru ekki fornleifar sem slíkar, bara fylgjast með breytingunum á minjastöðunum og hversu hratt þessar lífrænu leifar eru að eyðast."

Þjóðminjasafnið í Danmörku og Þjóðminjasafnið á Grænlandi fengu nýlega um 500 milljónir í rannsóknir á menningarminjum á Grænlandi sem eru í hættu vegna loftslagsbreytinga, og NIKU sem er fornleifarannsóknafyrirtæki í Noregi fékk um 250 milljónir til þess að rannsaka áhrif loftslagsbreytinga á menningarminjar. Fjármunirnir eru einungis notaðir í að fylgjast með minjunum en fara ekki í eiginlegar fornleifarannsóknir. 

Öflugar lægðir skella á oftar

„Svo ef maður færir þetta yfir á Ísland þá höfum við einn sjóð sem við getum sótt um í og það er Fornminjasjóður og í ár var úthlutað tæpum 42 milljónum. Þetta er í rauninni sjóður sem fer í allt. Þetta eru björgunarrannsóknir, rannsóknir, rannsóknaruppgreftir og sjóður til þess að lagfæra báta. En þetta er það eina sem við höfum. Og við erum ekki með neina áætlun og ekki neitt hér á Íslandi til að fylgjast með þessu og þetta er að hafa gríðarlega mikil áhrif.“

Vitum við að loftslagsbreytingar eru að hafa áhrif á fornminjar hér eða menningarminjar eða hvað við köllum þetta?  „Í rauninni vitum við það ekki en það sem við vitum er að allar lægðirnar sem eru alltaf að skella á okkur, þær eru að verða algengari og harðari og þær eru að ganga á minjar við strandlengjuna og það eru þúsundir minjastaða sem eru að fara í sjóinn og þetta er svo sorglegt að horfa upp á þetta."  

Til stóð að skrá minjar í hættu hér á landi en fjármagnið sem fór í það var ekki mikið. Lísabet segir að það hafi verið bara dropi í hafið. 
 
„En svo það sem þeir eru að gera núna í Noregi og Grænlandi, það er þessi monitoring [eftirlit/vöktun] á minjastöðunum og þá eru þeir að tala um eins og bæjarhóla og svoleiðis bara til þess að meta hversu hratt þessar lífrænu leifar eru að eyðast. Við höfum ekkert svoleiðis og ég meina, þetta er samt sem áður að gerast hér eins og annars staðar á heimskautasvæðinu.“ 

Menningarminjar fyrir framtíðina

Lisabet segir að mikilvægt sé að finna og skrá þá staði sem eru í hættu, greina þá. Það hafi ekki verið klárað hér á landi. Nauðsynlegt sé að skrá staði á öllu landinu hið fyrsta.

„Hitt er svo að fylgjast með þessum breytingum sem eiga sér stað í jörðinni. Það er náttúrulega eitthvað sem við þurfum að gera líka. Bara eins og torfið í torfveggjunum, þetta er náttúrlega mold en inn í þessu eru lífrænar leifar og þetta er að brotna allt miklu hraðar niður annars staðar í Noregi og Grænlandi og ég geri ráð fyrir því að það sé að gerast hér líka. Og við þurfum að hafa einhver tæki og tól til að fylgjast með þessu ef það á að vera einhver menningararfur eftir fyrir framtíðina að rannsaka, þá kemur það í okkar hlut að fylgjast betur með þessu og fara betur með þessar minjar.“

Algert áhugaleysi

Reynt hafi verið að vekja athygli stjórnvalda á þessu máli. Það hafi bæði Minjastofnun gert og fagfélögin.  

„Við erum í sífelldu harki um að gera eitthvað í þessum málum og eins og ég segi, Minjastofnun er sífellt að reyna að eiga við stjórnvöld en það er bara algert áhugaleysi.“