Af tuttugu sýnum, sem Umhverfisstofnun tók úr flugeldum í byrjun ársins, reyndist eitt innihalda þúsund sinnum meira blý en hvert hinna. Sýnið var úr kúlublysi sem PEP International flytur inn og hefur Neytendastofa bannað sölu á blysinu tímabundið. Þorsteinn Jóhannsson og Eiríkur Þórir Baldursson, sérfræðingar hjá Umhverfisstofnun, segja að ekki megi setja blý í flugelda. ári.
Umhverfisstofnun ákvað að skoða blý í flugeldum
Aldrei hefur mælst eins mikið svifryk á höfuðborgarsvæðinu og á nýársnótt fyrir tæpu ári. Spegillinn fór á stúfana í byrjun ársins til að fjalla um þessa miklu svifryksmengun og ræddi meðal annars við Landsbjörg um mengunina og innihald flugelda. Fréttamaður Spegilsins fékk að skoða lista yfir þau efni sem eru í flugeldunum og rak þar augun í efnatáknið Pb sem táknar blý. Ekki er leyfilegt að setja blý í skotelda og óskaði Spegillinn eftir því við Landsbjörg að fá afhentar upplýsingar um innihald flugeldana. Landsbjörg varð ekki við óskum Spegilsins og sagði að þær upplýsingar yrðu einungis afhentar yfirvöldum. Spegillinn leitaði því til Umhverfistofnunar og vakti athygli hennar á þessu. Þegar mælingar á loftsýnum sýndu ennfremur hækkun á blýi studdi það ákvörðun stofnunarinnar um að skoða blý í flugeldum frekar.
Þorsteinn segir að loftsýnin hafi verið tekin á mælistöðinni Norðurhellu í Hafnarfirði. „Það var greinileg hækkun á blýi á gamlárskvöld miðað við dagana á undan og eftir. Þó að það væri greinileg hækkun, fór úr um það bil einu nanógrammi í fjögur, fjórföld hækkun, voru þetta ekki margir dagar og fjögur nanógrömm er samt ekki mikið þó að það sé greinileg hækkun. Heilsuverndarmörkin eru 500 nanógrömm.
Tekin 20 sýni í allt
Þó svo að hækkunin hafi ekki verið mikil vildi Umhverfisstofnun vita nákvæmlega hvað væri í flugeldunum og hafði samband við alla sex innflytjendur flugelda í fyrra. Það eru Stjörnuljós ehf., E-þjónustan ehf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, PEP International, KR-flugeldar ehf. og Gullborg ehf.
Eiríkur segir að tekin hafi verið hlutfallslega jafnmörg sýni hjá öllum þannig að tekin voru fleiri sýni hjá þeim sem eru stærri. „Við tókum 20 sýni í heildina og það voru frá tveimur og upp í sjö sýni hjá hverjum.“
Rannsókn af þessu tagi tekur tíma því strangar reglur eru um hvernig meðhöndla á skotelda. Þeir voru teknir í sundur af sérstökum sérfræðingum hér á landi. Púðrið og allt sem er inni í þeim var síðan mælt í Þýskalandi. Ekki má flytja efnin til þangað í flugvél og því voru þau flutt með skipi.
Jákvæðar niðustöður fyrir utan eitt sýni
Umhverfisstofnun ákvað að skoða ekki bara hve mikið blý væri í sýnunum heldur líka arsen, hexaklór og bensen, sem mælt var í flugeldum fyrir sex árum, og ennfremur kvikasilfur.
„Helstu niðurstöðurnar eru að skoteldar á Íslandi eru sem betur fer flest allir frekar hreinir. Við vorum með eitt frávik, eða eitt sem við getum sagt að sé frávik, en önnur gildi er hægt að útskýra með uppruna innihaldsefnanna. Og hvaða frávik var þetta? Þetta var eitt kúlublys sem mældist með miklu hærra blýinnihald en nokkur annar flugeldur sem var mældur. Hversu mikið? Þetta voru 80 grömm á hvert kíló af blýi en önnur gildi voru öll á skalanum milligrömm. Þannig að þetta var 1000 sinnum hærra.“
Blýið samsvaraði um 8% af þyngd púðursins í kúlublysinu og er það u.þ.b. 1500 falt hærri styrkur en í hinum sýnunum.
Ekki leyfilegt að setja blý í skotelda
Samkvæmt relgugerð eiga skoteldar vera CE merktir og samkvæmt þeim reglum eiga skoteldar ekki að innihalda blý.
„Það eru auðvitað einhver mörk sem þarf að miða við en þetta magn telst vel yfir og við getum ekki sagt að þetta sé eðlilegt bakgrunnsgildi. Hvernig komu hin efnin út? Hin efnin komu bara mjög vel út. Þau voru flest í kringum eða undir greiningarmörkum“, segir Eiríkur
Þorsteinn segir að það hafi verið skemmtilega óvænt að bara eitt sýni hafi verið yfir mörkum. „Hin voru í sjálfu sér með lága styrki, sem er gott, en þetta eina sýni var svona gróflega séð þúsundfalt hærra en hin og þá greinilega með íbættu blýi til að ná fram einhverjum ákveðnum eiginleikum. Þannig að það er jákvætt hvað sýnin almennt komu vel út fyrir utan þetta eina.“
Blý safnast upp í náttúrinni
Blý er þungmálmur, það er eitrað og óæskilegt að það sé sett út í lífkerfið því það brotnar ekki niður heldur safnast upp í náttúrunni.
„Og við viljum bara takmarka sem mest alla losun á blýi. Þannig að ef það er mikil blýmengun frá einhverjum stað endar með því að það fellur til jarðar í kartöflugarðinum okkar og þá endar með því að við borðum það með grænmetinu. Eða það lendir í vatni og endar í fiskinum sem við borðum. Yfirleitt eru menn að horfa á langtímaáhrif, að blý sé ekki að safnast upp í náttúrunni, og enda í fæðukeðjunni og við borðum það og það er í sjálfu megin markmiðið að takmarka blý í flugeldum.“
Mjög alvarleg svifryksmengun um áramót á Íslandi
Þó að þessar niðurstöður séu frekar jákvæðar breytir það því ekki hve alvarleg svifryksmengunin er um áramót á Íslandi.
„Svifryksmengunin er eitt og annað er að takmarka blý. Þó við getum búið til algerlega blýlausa flugelda sitjum við samt uppi með þetta mikla svifryk á gamlárskvöld. Og það er svifrykið, þessi hái styrkur svifryks, sem veldur þessum bráðaáhrifum hjá fólki sem er viðkvæmt fyrir eins og lungnasjúklingum. Þannig að það breyttist ekki þótt það væri ekkert blý í flugeldum.“
Neytendastofa hefur sett á tímabundið sölubann
Umhverfisstofnun hefur tilkynnt Neytendastofu niðurstöðurnar. Svava Gerður Ingimundardóttir, sérfræðingur á öryggissviði Neytendastofu, segir að innflytjandinn, PEP International, hafi verið látinn vita og markaðssetning og sala á blysunum stöðvuð tímabundið. Fyrirtækið hefur andmælarétt og síðan verður tekin afstaða til málsins en gera megi ráð fyrir að blysin verði alfarið tekin úr sölu.
Endurtaka mælingar um næstu áramót
Þorsteinn segir að þær mælingar sem gerðar voru um síðustu áramót verði endurteknar núna.
„Síðast mældum við á Norðurhellu í Hafnarfirði sem er eiginlega úti á iðnaðarsvæðinu. Við mældum þar af því að mælitækið var staðsett þar. Nú erum við búin að flytja mælitækið og það er núna á Grensásvegi í Reykjavík og við erum að setja annað mælitæki í Dalsmára i Kópavogi. Við ætlum að endurtaka sömu mælingu á lofti og við gerðum síðast en vera nær upptökunum í mestu flugeldaskotrhríðinni þannig að við búumst við að fá hærri gildi en á Norðuhellu af því að það var bara utan við þéttustu byggðina. Eftir þessi áramót höfum við meiri upplýsingar um styrk þessara efna í andrúmslofti í byggðinni hérna innan höfuðborgarsvæðisins sem eru svona ákveðnar upplýsingar sem við þurfum að hafa og höfum ekki haft hingað til.“