Yfir þúsund leituðu sér aðstoðar í fyrra vegna heimilisofbeldis og ofbeldis í nánum samböndum. 890 slík mál voru tilkynnt til lögreglunnar í fyrra. Nú stendur yfir vitundarvakning um málið, á vegum Jafnréttisstofu, undir yfirskriftinni Þú átt von. Markmiðið með henni er að vekja athygli á því hvert fólk getur leitað til að fá hjálp til að losna úr slíkum samböndum og hvert gerendur geti leitað meðferðar.

Konur af erlendum uppruna, fatlaðar konur og konur sem ganga með barn eru í sérstakri hættu að verða fyrir heimilisofbeldi, að sögn Fríðu Rósar Valdimarsdóttur, sérfræðings hjá Jafnréttisstofu. Einnig er algengt að börn verði vitni að heimilisofbeldi. Hluti af vitundarvakningunni eru fimm myndbönd sem birt eru á vef Jafnréttisstofu. Í fjórum þeirra segja þolendur frá reynslu sinni og í einu er fjallað um úrræði fyrir gerendur. „Í einu myndbandinu segir þolandi frá því hvernig var að búa við heimilisofbeldi og sjá alltaf fleiri marbletti á móður sinni,“ sagði Fríða Rós í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 103 börn dvöldu í Kvennaathvarfinu í fyrra. Í tveimur af hverjum þremur tilfellum um tilkynnt heimilisofbeldi til lögreglu í Reykjavík í fyrra voru börn á vettvangi.

Segir ofbeldi oft langt gengið þegar lögregla er kölluð til

Samkvæmt tölfræði sem Jafnréttisstofa tók saman leituðu yfir þúsund sér aðstoðar í fyrra vegna heimilisofbeldis. Teknar voru saman tölur um komur í Kvennaathvarfið, Bjarkahlíð og Aflið á Akureyri. „Þessi tala er rosalega há en það er gott að sjá hve margir leita sér aðstoðar,“ segir hún. Í fyrra bárust 890 tilkynningar um heimilisofbeldi til lögreglunnar. Fríða Rós segir að lítill hluti þolenda leiti til lögreglu. Oft hafi ofbeldið stigmagnast og mikið gengið á þegar fólk óski eftir aðstoð lögreglu.

Betur gengur að hætta líkamlegu ofbeldi en andlegu

Andrés Ragnarsson, sérfræðingur í meðferðum fyrir fólk sem beitir ofbeldi í nánum samböndum hjá Heimilisfriði, segir að á þeim 16 árum sem liðin eru síðan starfsemin hófst hafi um 1.000 gerendur leitað þangað eftir aðstoð. Það séu töluvert færri en fjöldi þolenda sem leiti sér aðstoðar. Árlega leita um 100 gerendur sér hjálpar í fyrsta sinn. Andrés segir að árangurinn sé býsna góður og svipaður því sem best gerist í heiminum, samkvæmt rannsókn sem gerð var árið 2014. Betur gangi að fá gerendur til að láta af líkamlegu ofbeldi en andlegu. „Það er faldara og flóknara og kynferðislegt ofbeldi sömuleiðis. Það er dýpra á því,“ segir hann. Mun meira er hægt að gera þegar kemur að meðferðum fyrir ofbeldismenn hér á landi, að mati Andrésar. „Það er svo mikil fyrirbyggjandi vinna að gera fyrir hvern ofbeldismann sem hættir að beita ofbeldi, þá eru margir þolendur sem sleppa. Þetta er rándýrt fyrir samfélagið. Þannig að já ég held að við höfum mikið verk að vinna, þó að við séum að gera margt ansi vel.“

Það getur tekið tíma að vinna sér inn traust

Gerendur leita sér ýmist sjálfir hjálpar eða er vísað í meðferð, til dæmis af lögreglu. Andrés segir að í meðferðinni sé lögð áhersla á að hrósa fólki fyrir að vilja gera eitthvað í sínum málum en taka fulla afstöðu gegn ofbeldinu. Um 85 prósent gerenda hafa orðið vitni að ofbeldi sem börn og eiga sér langa sögu um áföll. Sérfræðingarnir sem veita meðferðina þurfa því að vinna sér inn traust sem hefur glatast yfir heila ævi.

Hér má sjá myndbönd vitundarvakningar Jafnréttisstofu Þú átt von.