Þurfum fleiri mörk vinstra megin á vellinum

12.03.2017 - 19:45
Geir Sveinsson landsliðsþjálfari í handbolta segir að aldur landsliðsmanna skipti ekki máli heldur hvað hentar landsliðinu best. Geir segir að óvissan um þátttöku Arons Pálmarssonar á HM í janúar hafi verið óþægileg fyrir landsliðshópinn.

HSÍ fagnar 60 ára afmæli um þessar mundir og í tilefni af því voru haldnir fyrirlestrar á föstudag eins og greint var frá í íþróttafréttum okkar. Þar fór Geir yfir ítarlega tölfræðigreiningu á leikjum Íslands á HM í Frakklandi í janúar og miðað við þá greiningu liggur fyrir hvar vantar mest framlag leikmanna á vellinum.

„Ef við berum okkur saman við hinar þjóðirnar hvar við erum ekki að skora nægilega mikið þá er það vinstra megin á vellinum. Sóknarlega þá vorum við að fá tækifærin í hornunum en vorum ekki að nýta þau nægilega vel,“ segir Geir Sveinsson.

Eftir HM vakti mikla athygli þegar landsliðsmaðurinn fyrrverandi Kristján Arason, sagðist vilja losa sig við fjóra af reyndustu mönnum landsliðsins til að yngja upp, Kára Kristjánsson, Ásgeir Örn Hallgrímsson, Arnór Atlason og Guðjón Val Sigurðsson.

„Mér fannst allir þessir drengir standa sig ljómandi vel. Ég er ekki að horfa á aldur né fyrri störf heldur meta þetta út frá stöðu hverju sinni og hvað við þurfum. Ég held að þetta snúist um að finna bestu og réttustu blönduna hverju sinni.“

Aron Pálmarsson hefur ekki spilað handbolta síðan í nóvember vegna meiðsla en allt var reynt til að koma honum í leikform fyrir HM. Þessi óvissa tók ákveðinn toll af liðinu.

„Þangað til að ég setti punktinn - ég tók ákvörðun. Ég var farinn að skynja það innan hópsins að við urðum að fá niðurstöðu. Það var orðið löngu tímabært.“  

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður