„Framtíðin er klárlega falin í því að koma okkur heim - að koma okkur á leiðarenda. Við erum ekki milljónaborg," segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn, um hvaða áherslur eigi að hafa í almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Hann fagnar aðgerðaáætlun í lofstlagsmálum og segir Íslendinga eiga mikil tækifæri í að nýta rafmagn til að knýja faratæki. Á Morgunvaktinni á Rás 1 gagnrýndi Eyþór hugmyndir meirihlutans um borgarlínu, sem séu úreltar. Hann

„Almenningssamgöngur munu breytast," segir Eyþór Arnalds og bætir við að breytingarnar verði hraðar ef við leyfum því að gerast: „ Fyrsta skrefið er að taka rafmagn í notkun í stað eldsneytis, eins og verið er að gera. En við sjáum að stórir vagnar eru ekki endilega bestir til að auka ferðatíðnina, sem hefur verið aðal vandamálið. Við þurfum þess vegna fleiri, minni og sjálfstýrða vagna í framtíðinni - frekar heldur en stóra vagna með bílstjóra. Við getum aldrei náð betri ferðatíðni i 130 þúsund manna borg ef við ætlum að vera með stærri og stærri vagna.  Þetta er ein staðreynd. Önnur staðreynd er sú að við gerum kröfur um það á Íslandi að komast á leiðarenda, en eins og borgarlína hefur verið útfærð þá er hún of lítil - ekki nægilegt þjónustustig.“ Með öðrum orðum, þá sé of langt frá stoppistöð til heimilis flestra farþega. Eyþór Arnalds segir að áætlanir Strætó hafi ekki gengið upp af því að þær séu ekki raunhæfar. Hann vilji raunhæfar lausnir í samgöngum. „Við erum með gullið tækifæri Íslendingar að fara í sjálfvirkni og rafmagn. Við erum með háan launakostnað, mikinn olíukostnað. Minnkum þennan kostnað. Bætum gæðin. Það er leiðin."