Ung hjón þurftu að greiða allan kostnað vegna meðgöngu og fæðingar barns síns, þar sem konan er erlend. Breytti þar engu að barnið er íslenskur ríkisborgari og faðirinn íslenskur í húð og hár. Sjúkratryggingar hefðu borgað ef konan væri íslensk en maðurinn erlendur.

Aria litla fæddist fyrir einum mánuði. Foreldrar hennar, Friðjón og Fernanda, kynntust á netinu. Fernanda er frá Mexíkó og Friðjón fór í heimsókn til hennar þangað. Þau felldu hugi saman og fljótlega varð Fernanda ófrísk.

„Við komum hingað í júlí, giftum okkur í ágúst. Við hefðum komið fyrr, hefði ekki þurft að eyða þremur mánuðum í að ná í alla pappíra til þess að sækja um dvalarleyfi og að gifta okkur, það tók þrjá mánuði í Mexíkó,“ segir Friðjón.

Það tekur Fernöndu átta mánuði að fá dvalarleyfi og öðlast réttindi til sjúkratrygginga. Þau réttindi fær hún því ekki fyrr en í mars. Þar af leiðandi þurftu ungu hjónin að greiða allan kostnað vegna meðgöngunnar og fæðingarinnar úr eigin vasa. 

Hátt í milljón í útlagðan kostnað

Friðjón segist vera hættur að telja hver heildarkostnaðurinn er. „Við höfum eytt svona 900 þúsund kannski. En þetta var ekki áfallalaus meðganga eða fæðing, þetta flokkaðist undir áhættumeðgöngu.“

Fæðingin kostaði tæpar sjö hundruð þúsund krónur, en þá er ekki allt upp talið. Guðjón segir að þau hafi einnig þurfta að greiða fyrir hverja heimsókn á heilsugæslu og tugi þúsunda fyrir aðra þjónustu, eins og meðgöngusónar. „Við höfum farið t.d. tvisvar á bráðamóttöku og fyrra skiptið er 65 þúsund og seinna skiptið hundrað þúsund.“

Þessi útlagði kostnaður hafi að sjálfsögðu haft áhrif á ráðstöfunartekjur litlu fjölskyldunnar. „Þetta hefur bein áhrif á lífsgæði fjölskyldu minnar,“ segir Friðjón.

Kostnaðurinn hafi gert það að verkum að þau hafi veigrað sér við að sækja heilbrigðisþjónustu. „Já, það gerðist þó nokkrum sinnum,“ segir Friðjón. „Það var rosalega erfitt að taka ákvörðun um - á ég að fara núna og fá reikning í bakið sem mun koma niður á fjölskyldunni í heildina, eða eigum við að bíða og sjá hvort að þetta lagist?“

Mannréttindi að barnið fái fæðingarþjónustu

Ef þessu væri öfugt farið, og Fernanda væri íslensk en Friðjón erlendur, þyrftu þau aftur á móti nánast ekkert að borga. Friðjón telur að þarna sé galli í kerfinu, og finnst að réttindi föður og barns gleymist. „Barn hefur víst engin réttindi fyrr en eftir fæðingu,“ segir Friðjón. Fæðingarþjónustan sé að hans mati ekki síður þjónusta við barnið. „Fyrir mér eru þetta beisikk mannréttindi. Það þarf að breyta þessu.“