Gagnrýnendur Kiljunnar eru stórhrifnir af skáldsögunni Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Höfundi takist að ná tökum á lesandanum og búi til óhugnaðarheim sem þrengir að vel gerðu hæfileikafólki á alla enda og kanta.

Sögusvið bókarinnar er Reykjavík árið 1963. Ung kona vestan úr Dölum flytur til Reykjavíkur með nokkur handrit í fórum sínum. Á þessum tíma fæddust karlmenn skáld en ungum konum var boðið að taka þátt í fegurðarsamkeppni Fegrunarfélags Reykjavíkur.

Þorgeir Tryggvason segir að bókin gæti allt eins hafa gerst hundrað árum fyrr – samfélagið, sem þar er lýst, sé æði fornaldarlegt: „Samfélagið er þarna í miklum höftum hugmynda fornaldarinnar um stöðu kvenna og stöðu samkynhneigðra. Hekla heitir stúlka í Dölunum sem fæðist með ægilega skáldskapargáfu og hún fer suður með rútunni til að rækta þessa gáfu sína og sagan lýsir í rauninni baráttu hennar við það að koma sér á framfæri og verða það skáld sem hún veit að hún getur verið. Samfélaginu er best lýst sem einhvers konar dystópíu. Þetta er nánast kafkaískt andrúmsloft sem þrengir að henni á alla kanta. Allir vilja fyrst og fremst að hún taki þátt í fegurðarsamkeppni og það er algjörlega ljóst að hún mun ekki koma neinu á framfæri sem hún skrifar. Þó það sé ljóst að hún sé meiriháttar efni.“

Sunna Dís Másdóttir tekur undir með Þorgeiri um hið aðþrengda umhverfi sem aðalpersónurnar búa við. „Þau eru þarna þrjú, æskuvinir úr Dölunum. Það er Hekla sem er eldfjallið með kvikuna, Ísey sem hún speglar sig svolítið í, þessi unga móðir í Norðurmýrinni og svo Jón John, vinur þeirra sem er samkynhneigður. Öll eru þau svona aðþrengd að samfélagið er að murka úr þeim sköpunargleðina, þrána og fegurðarþrána. Ísey slysast eiginlega til þess að verða skáld á meðan að hjá Heklu er þetta algjörlega meðvitað. Hún ætlar sér að verða skáld og er búin að fá birt ljóð og smásögur undir dulnefni, skrifar á nóttinni og hefur mjög einbeittan vilja,“ segir Sunna Dís.

Þau Þorgeir og Sunna Dís voru bæði verulega ánægð með Ungfrú Ísland. „Þetta er alveg æðislega vel gerð bók. Hún er algjörlega hlutlæg, hún segir okkur aldrei hvernig Heklu líður eða hvað hún er að hugsa. Hún lýsir bara því sem gerist. Þetta nær alveg mögnuðum tökum á manni og býr til þennan óhugnaðarheim sem þrengir að þessu vel gerða og gáfaða fólki á alla enda og kanta,“ segir Þorgeir.

Sunna Dís bætir svo við: „Ég þurfti að pína mig til að lesa hægt, ég gat eiginlega ekki stoppað og mig langaði að gleypa þetta allt í einu. Þetta er dásamlegur texti og frábær bók í alla staði.“