„Við fæddumst bara inn í þennan heim, þar sem þetta vandamál var þegar til staðar. Samt sem áður erum það við sem verðum fyrir mestum áhrifum af þessum vanda.“ Þetta var á meðal þess sem umhverfisaðgerðasinninn Greta Thunberg sagði í ávarpi sínu á norrænni ungmennaráðstefnu um sjálfbæran lífsstíl í Hörpu eftir hádegi í dag. Thunberg hefur vakið heimsathygli fyrir að skrópa í skóla til að mótmæla aðgerðarleysi sænskra stjórnvalda í umhverfismálum.

Ávarp Thunberg, sem tekið var upp í Stokkhólmi og sýnt á ráðstefnunni, má sjá í spilaranum hér að ofan.

„Mér þykir leitt að hafa ekki getað verið með ykkur í dag, en þar sem ég ferðast ekki með flugvélum gat ég ekki komið,“ sagði Thunberg. „En mig langaði bara að segja að við, unga fólkið, stöndum frammi fyrir vanda sem varðar framtíð okkar á jörðinni, það er að segja hlýnun jarðar. En við unga fólkið sköpuðum ekki þann vanda. Við fæddumst bara inn í þennan heim, þar sem þetta vandamál var þegar til staðar. Samt sem áður erum það við sem verðum fyrir mestum áhrifum af þessum vanda. Það er ekki sanngjarnt þannig að við verðum að gera eldri kynslóðir ábyrgar fyrir því sem þær hafa gert, og fyrir því sem þær halda áfram að gera okkur. Og við verðum að bregðast við strax vegna þess að eftir því sem fleiri dagar og fleiri ár líða án raunverulegra aðgerða aukast líkurnar á hreinum hörmungum. Þannig að við verðum að gera eitthvað strax.“

Ráðstefnan í Hörpu fjallar um sjálfbæran lífsstíl og ábyrga neyslu og er haldin í tengslum við formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Tilgangur málþingsins er að leiða saman ungt fólk, atvinnurekendur og valdhafa frá öllum Norðurlöndunum til að ræða lausnir í átt að ábyrgari lífsstíl. Umhverfisráðherrar allra Norðurlandanna taka þátt í ráðstefnunni og eiga samtal við ungmenni um loftslagsmál og neyslu. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, setti ráðstefnuna og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur lokaávarp.