Fimmtán ára stúlka trúði vart sínum eigin augum og eyrum í dag þegar forsætisráðherra tilkynnti henni óvænt að hún færi fyrir Íslands hönd til Úganda. Þar mun hún taka þátt í að kynna heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. 

Íslensk stjórnvöld auglýstu nýverið eftir unglingi fæddum 2003 til þess að taka þátt í kynningu á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem miða meðal annars að því að útrýma fátækt og hungri. Verkefni þess sem verður fyrir valinu er að taka þátt í gerð heimildarmyndar um heimsmarkmiðin, sem felur meðal annars í sér að fara í tíu daga til Úganda. Leikstjóri heimildarmyndarinnar er Sigtryggur Magnason og Hvíta húsið framleiðir.

80 unglingar sóttu um, en í dag var tilkynnt hver varð fyrir valinu. Elíza Gígja Ómarsdóttir var að horfa á systur sína spila fótbolta og vissi ekki hvaðan á hana stóð veðrið þegar forsætisráðherra birtist óvænt. Samtal þeirra á hliðarlínunni, sem sjá má í spilaranum hér að ofan, var svohljóðandi:

„Elíza Gígja, ert það ekki þú?“

„Jú.“

„Gaman að sjá þig, ég heiti Katrín og er forsætisráðherra. Ég er að sjá um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, þau eru í forsætisráðuneytinu.“

„Þú lýgur.“

„Þú varst ein af þessum áttatíu sem sóttu um að fara til Úganda, og tekin í viðtal ásamt fjórum öðrum. Og ég ætlaði bara að segja þér að þú varst valin og ert að fara til Úganda. Ég er ekki að grínast.“

Með augum unglingsins

Aðspurð segist Elíza ekki hafa átt von á þessu.

„Alls ekki. Nei. Alls ekki.“

Hvernig leið þér þegar forsætisráðherra kom og tilkynnti þér þetta?

„Ég var bara mjög hissa. Ég er ennþá í sjokki.“

Katrín segir það hafa verið sérstaklega gaman að fá að koma Elízu svona á óvart.

„Ég er mjög ánægð með að skynja þann mikla áhuga sem er hjá börnum og ungmennum á þessu mikilvæga verkefni.“

Hefurðu einhvern tímann komið einhverjum jafnmikið á óvart?

„Nei. Hún Elíza var mjög hissa. Og það er gaman að fá að taka þátt í svona uppákomu. En ég vona að þetta verði mikilvæg reynsla fyrir hana en ekki síður að hún nái að miðla þeirri reynslu til bæði sinna jafnaldra en líka okkar hinna, stjórnmálamannanna ekki síst.“

Sjálf segist Elíza mjög spennt að fara til Úganda.

„Ég er bara að fara að gá hvernig þetta er og sjá þetta með augum unglingsins og miðla því áfram,“ segir hún.