Það varð uppi fótur og fit í Geirabakaríi í Borgarnesi í dag þegar svartþröstur og smyrilli flugu þar inn, í æstum eltingaleik. Svartþrösturinn flúði smyrilinn inn í bakaríið og leitaði skjóls þar en smyrillinn æddi á eftir.
Þrösturinn faldi sig og smyrillinn beið átekta en flaug af stað um leið og svartþrösturinn hreyfði sig. Starfsfólk bakarísins ákvað síðan að skerast í leikinn en illa gekk að ná í fuglana sem voru mest uppi í rjáfri.
Karl Sigtryggsson myndatökumaður RÚV og Gísli Einarsson fréttamaður voru að drekka kaffi frammi í veitingasal bakarísins þegar lætin hófust. Þeir blönduðu sér í baráttuna og svo fór að Gísli handsamaði fuglinn uppi á bakaraofni en Karl myndaði atganginn allan á snjallsíma sinn.