„Á opnuninni um daginn var mjög gaman að sjá hvernig fólk brást við þessari innsetningu,“ segir Anna Guðjónsdóttir myndlistarmaður en sýning hennar Hluti í stað heildar (Pars pro toto) er nú uppi í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur. Þar skapar Anna forvitnilega þrívídd í salinn með einföldum járnrömmum og þar renna menning og náttúra saman á táknrænan máta.
Önnu Guðjónsdóttur var boðið að vinna með A-salinn í Hafnarhúsinu en Listasafn Reykjavíkur hefur undanfarin ár boðið listamönnum að takast á við salinn með nýjum innsetningum. Arkítektúr salarins einkennist af voldugum súlum hins gamla vöruhúss og stórum gluggum sem fylla upp í gömlu hleðsludyrnar. Útfærsla Önnu er strúktúr úr járngrindum sem býr til rythma og fjarlægð í salinn, skapar mikla tilfinningu fyrir þrívídd og sjónhverfingar þannig að gesturinn heldur nánast fyrst að um speglasal sé að ræða. Fyrir vikið er eins og þeir sem standi innar í salnum minnki vegna áhrifa innsetningarinnar.
Landslag er menningarbundið
„Auðvitað veit ég hvaða þætti ég er að vinna með en það var samt upplifun fyrir mig á opnuninni að sjá fólkið koma inn og velta fyrir sér hvort þetta væru speglar eða gler,“ segir Anna í viðtali í Víðsjá á Rás 1. Innst í salnum er síðan að finna fínlega kolateikningu á vegg sem er greinilega ættuð frá Þingvöllum en sá merki staður stendur hjarta hennar nærri.
Anna bendir á að upplifun fólks af því landslagi sé auðvitað menningarbundin eins og annað. Hún hafi unnið verk áður útfrá Þingvöllum en þá hafi mörgum í kringum hana í Þýskalandi, þar sem hún er búsett, fundist landslagið nánast eins og út úr einhverri Lord of the Rings mynd. „Þá sagði ég „ha? Nei nei, þetta er alvörulandslag, ekkert fantasíu-dæmi.““ Þetta kveikti pælingar Önnu um sýningarkassa sem við horfum oftar en ekki í gegnum þegar við upplifum náttúruna í dag.
Starfar í Hamborg
Anna Guðjónsdóttir (f. 1958) er fædd og uppalin í Reykjavík en eftir tveggja ára nám í höggmyndadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands fór hún til Þýskalands í myndlistarnám við Listaháskóla Hamborgar þaðan sem hún brautskráðist árið 1992. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun fyrir myndlist sína og haldið sýningar víðs vegar um heim en nokkuð er um liðið frá því hún sýndi síðast á Íslandi. Anna er búsett í Hamborg en er alltaf með annan fótinn hér á landi.
Hér fyrir ofan má heyra ítarlegt viðtal sem tekið var við Önnu í A-salnum á dögunum en sýningin er ekki síst forvitnileg fyrir þær sakir að hún hentar einkar vel til að útskýra fjarvídd í myndlist áhugasömu ungu fólki.