Í eitt ár hafa Palestínumenn á Gaza komið saman og mótmælt við landamæri Ísraels. Nærri tvö hundruð Palestínumenn hafa fallið í mótmælunum, þar af þrír í dag.

Palestínumenn kalla mótmælin heimgönguna miklu. Krafa þeirra er sú að palestínskt flóttafólk sem var hrakið frá heimilum sínum í landtöku Ísraels fái að snúa heim á ný. Dagurinn í dag markar eitt ár síðan fyrstu mótmælin hófust og söfnuðust Palestínumenn í tugþúsunda tali saman við landamærin að því tilefni. Stjórnvöld í Ísrael segja mótmælin á forræði Hamas-samtakanna sem eru við stjórn á Gaza en Palestínumenn neita því og segjast mótmæla á eigin forsendum. Raunar hafa mótmæli gegn Hamas einnig átt sér stað á Gaza nýverið. 

Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum hafa Ísraleskir hermenn fellt 194, þar af 40 börn, 3 heilbrigðisstarfsmenn og tvo blaðamenn frá því að mótmælin hófust. Um 29.000 hafa verið særð og yfir 120 hafa misst útlim. 

Ísraelsher hugsanlega sekur um stríðsglæpi

Mannskæðasti dagurinn til þessa var 14. maí í fyrra. Þá féllu yfir 50 Palestínumenn og yfir tvö þúsund voru særðir. Viðbrögð ísraelskra hermanna voru fordæmd víða og var kallað eftir rannsókn á framferði þeirra, meðal annars innan Sameinuðu þjóðanna. Niðurstöður rannsóknar voru að sumir mótmælendur hafi beitt ofbeldi undanfarið ár en yfirgnæfandi meirihluti þeirra sé óvopnaður og friðsamur. Því sé ekki réttlætanlegt að bregðast við með skothríð og aðgerðir Ísraelshers gætu jafnvel talist til stríðsglæpa.

30. mars er táknrænn dagur fyrir Palestínumenn. Hann er jafnan kallaður Dagur landsins (í merkingunni landsvæði) en þann dag árið 1976 skipulöggðu Palestínumenn sem höfðu verið búsettir innan landamæra Ísraelsríkis, mótmæli í fyrsta sinn frá 1948. Sex óvopnaði mótmælendur voru drepnir og um hundrað særðir þann dag. Þau mótmæli snérust að landtöku Ísraelríkis á svæði nálægt Galíleu.