Sóun er heimildarmynd um matarsóun sem samtökin Vakandi stóðu að í samvinnu við Vesturport og Landvernd. Í myndinni kemur meðal annars fram hversu mjög matarsóun og loftslagsmál haldast í hendur. Myndin er sýnd á RÚV kl. 20.05 í kvöld.
Myndin fjallar um matar- og tískusóun og var frumsýnd á heimildarmyndahátíðinni Skjaldborg á Patreksfirði sumarið 2018. Í myndinni er reykvískri móður fylgt eftir í átt að aukinni vitund um þá matarsóun sem á sér stað á hefðbundnu heimili.
Talið er að á Íslandi endi þriðjungur matvæla sem sorp á einn eða annan hátt. Sóunin er á öllum stigum; í ræktuninni, strax við uppskeru, við flutning, hjá framleiðendum, í verslunum, í mötuneytum, á veitingastöðum og hjá neytendum.
Samtökin Vakandi stuðla að vitundarvakningu um sóun matvæla. Dagskrárgerð önnuðust Rakel Garðarsdóttir og Ágústa M. Ólafsdóttir og framleiðsla var í höndum Vesturports, Vakandi og Landverndar.
Heimildamyndin Sóun er á dagskrá RÚV í kvöld kl. 20.05, strax á eftir Menningunni.