Þremur fyrirtækjum gert að eyða þyrilsnældum

12.07.2017 - 12:32
epa05973579 A picture made available on 19 May 2017 shows children playing with the newest trend toy, a hand gadget called the Fidget Spinner (or Finger Spinner), at a school in Bern, 18 May 2017. The Fidget Spinner, a toy designed to help children with
 Mynd: EPA  -  Keystone
Neytendastofa hefur gert þremur innflytjendum að eyða öllum eintökum af tilteknum tegundum af þyrilsnældum sem enn kunni að vera til á vörulager þeirra. Fyrirtækin hafa frest fram í byrjun ágúst til að senda Neytendastofu staðfestingu þess efnis.

Neytendastofa setti tímabundið sölubann á þyrilsnældurnar í byrjun síðasta mánaðar. Ástæðan var sú að vörurnar voru ekki merktar og báru ekki varúðarmerkingar í samræmi við reglur um leikföng. 

Í ákvörðun Neytendastofu nú segir að á einni tegund af þyrilsnældu hafi merkingum verið ábótavant. Á hana hafi vantað allar viðvörunarmerkingar sem segja til um að leikfangið sé ekki ætlað börnum yngri en þriggja ára og engin viðvörun hafi verið um að varan væri með smáa hluti sem gætu valdið köfnunarhættu. 

Á hinum tveimur þyrilsnældunum vantaði upplýsingar um framleiðanda og þá voru viðvaranir um að leikfangið væri ekki ætlað börnum yngri en þriggja ára gráar og á ensku. Þyrilsnældurnar voru auk þess prófaðar samkvæmt amerískum leikfangastaðli og því ekki réttilega CE-merktar.

Neytendastofa segir að þótt fyrirtækin hafi sýnt samstarfsvilja og varan tekin úr sölu hafi þeim ekki tekist að sýna fram á að vörurnar uppfylli skilyrði varðandi framleiðslu og markaðssetningu leikfanga. Var þeim því gert að eyða öllum eintökunum.