Hrefna Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar íslenskra bókmennta, segir að áhugi á íslenskum bókmenntum erlendis aukist jafnt og þétt. „Áhugi á landinu er mikill, en áhugi á listum og menningu eykur líka áhuga og forvitni um landið. Þetta spilar vel saman.“
„Eitt hlutverk okkar er að auka útbreiðslu íslenskra bókmennta á heimsvísu,“ segir Hrefna Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar íslenskra bókmennta, í viðtali í Víðsjá á Rás 1. „Það gerum við til dæmis með þátttöku í bókasýningum erlendis. Þar þurfum við auðvitað svolítið að takmarka okkur en reynum að hafa það mjög markvisst. Í byrjun árs gefum við út kynningarbækling sem gefur yfirlit yfir nýliðið bókmenntaár með völdum titlum sem gefa góða mynd af því sem hér er í gangi. Þetta höfum við síðan tilbúið í mars fyrir bókamessuna í London. Auk þess gefum við líka út bækling sem snýr að styrkjamöguleikum erlendra útgefenda því að allir þeir sem hafa áhuga á að gefa íslenskar bækur út erlendis geta snúið sér til okkar.“
Hlutverk Miðstöðvar íslenskra bókmennta er að efla bókmenningu á Íslandi, kynna íslenskar bókmenntir erlendis og auka veg þeirra á ýmsan hátt. Miðstöðin veitir styrki úr sjóðum meðal annars til þýðinga, úr ferðasjóðum og til útgáfu. Auk þess tekur miðstöðin fyrir ýmis sérverkefni, til dæmis kannanir á lestrarvenjum Íslendinga.
Þýðendur fjársjóður
Hrefna segir að þýðingar séu lykilatriði í útflutningnum sem aukist hefur til muna undanfarin ár. „Þar er fjársjóðurinn, í starfi góðra þýðenda“ segir Hrefna. „Þetta hefur tekið stórt stökk að undanförnu. Það hefur verið þreföldun í þýðingum á íslenskum bókmenntum bara á síðustu tíu árum.“
Auk þess segir Hrefna að það færist mjög í aukana að íslenskir höfundar séu í samstarfi við alþjóðlega umboðsmenn sem komi bókum þeirra á framfæri og þeim sjálfum inn á bókmenntahátíðir og í fjölmiðla. „Þetta er mjög að aukast og er oftast mikið gæfuspor fyrir höfunda því að þá opnast þeim nýjar gáttir.“
Engar formúlur
Stundum heyrast spurningar um hvort erlendir lesendur og athygli hafi áhrif á skrif íslenskra höfunda. Hrefna segir erfitt að leggja mat á það. Hún treysti þó íslenskum rithöfundum til að stjórnast ekki um of af slíku. „Við getum ekkert sagt hvað það er sem gengur vel í erlenda lesendur. Bækur sem menn álíta fyrir fram að muni aldrei ferðast víðar eru allt í einu eitthvað sem slær alveg í gegn. Þetta er líka svo skemmtilegt,“ segir Hrefna en menningarþátturinn Víðsjá á Rás 1 er þessa dagana að velta fyrir sér kynningu á íslenskum listum erlendis og var kvikmyndalistin rædd í þættinum á dögunum.
Viðtalið við Hrefnu Haraldsdóttur má heyra í heild sinni hér í spilaranum að ofan.