Þorsteinn stýrir veiðigjaldsnefnd

08.05.2017 - 18:59
Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
 Mynd: Karl Petersson www.karlpetersson
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra hefur skipað Þorstein Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, formann nýrrar nefndar sem móta á tillögur um það hvernig tryggja megi sanngjarnt gjald fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni. Þorsteinn var sjávarútvegsráðherra frá 1991 til 1999 og gekk til liðs við Viðreisn, flokk Þorgerðar, í aðdraganda síðustu þingkosninga.

Flokkarnir á þingi skipa einn nefndarmann hver. Í nefndinni sitja þingkonan Hanna Katrín Friðriksson fyrir Viðreisn, Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, Mörður Ingólfsson fyrir hönd Pírata, Páll Jóhann Pálsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Theodóra S. Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar. Nefndin á að skila ráðherra tillögum í formi lagafrumvarps fyrir 1. desember næstkomandi.
 

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV