Þórir Hergeirs þjálfari ársins í fimmta sinn

15.03.2017 - 17:20
epa05077152 Norway's coach Thorir Hergeirsson reacts in the final match between The Netherlands and Norway at the Women's World Handball Championship in Herning, Denmark, 18 December 2015.  EPA/HENNING BAGGER DENMARK OUT
 Mynd: EPA  -  SCANPIX DENMARK
Þórir Hergeirsson og Frakkinn Didier Dinart hafa verið valdir þjálfarar ársins 2016 af Alþjóðahandknattleikssambandinu. Dagur Sigurðsson og Guðmundur Guðmundsson urðu í fjórða og fimmta sæti yfir þjálfara ársins með karlalandslið.

Dómnefnd á vegum IHF og almenningur kusu bestu þjálfarana. Þórir fékk tvo þriðju hluta atkvæðanna í kjörinu á þjálfara ársins hjá kvennalandsliði. Þórir gerði Noreg að Evrópumeistara í desember og undir stjórn hans vann liðið til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum. Þetta er í fimmta sinn sem Þórir er kosinn þjálfari ársins frá árinu 2010.

Olivier Krumbholz þjálfari Frakka varð í 2. sæti. Kim Rasmussen þjálfari Dana varð þriðji, Hank Groner þjálfari Hollands varð fjórði og Rússinn Evgeniy Trefilov fimmti.

Didier Dinart hafði naumlega betur í kjöri á þjálfara karlalandsliða gegn Svartfellingnum Veselin Vujovic þjálfara Slóveníu sem varð í 2. sæti. Dinart gerði Frakka að heimsmeisturum í janúar sl. og var aðstoðarþjálfari Frakka þegar þeir unnu silfurverðlaunin á Ólympíuleikunum.

Christian Berge þjálfari Noregs varð þriðji, Dagur Sigurðsson fjórði og Guðmundur Guðmundsson fimmti.

Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður