Þokast í samkomulagsátt en enginn samningur

19.03.2017 - 11:12
Mynd með færslu
Sá guli er með sprækara móti í hafinu umhverfis Danmörku þessi misserin.  Mynd: dr
Ekki náðust samningar um skipulag fiskveiða í Norður-Íshafi á fjögurra daga fundi níu ríkja og Evrópusambandsins sem lauk í Reykjavík í gær. Jóhann Sigurjónsson, formaður íslensku samninganefndarinnar, segir að mál hafi þokast mjög í samkomulagsátt en samningum ekki lokið fyllilega. Stefnt er að því að ljúka samningum síðar á þessu ári og skilur lítið í milli.

Viðræðurnar snúa að hafsvæði í Norður-Íshafi sem er utan lögsögu ríkja. Þar eru engar fiskveiðar stundaðar í atvinnuskyni en stór svæði eru að opnast þar sem hafísinn fer minnkandi. Hugmyndin er að ná samningum áður en veiðar hefjast. 

Löndin níu sem sitja við samningsborðið eru Ísland, Bandaríkin, Danmörk, Noregur, Kanada, Rússland, Japan, Kína og Suður-Kórea. 

Samningarnir snúa bæði að því að koma í veg fyrir stjórnlausar veiðar í þessari Norður-Íshafssmugu og að því að standa að rannsóknum á hafsvæðinu og lífríki þess.