Þögnin er hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar

„Þögnin er karllæg, hún er þjóðleg, hún er óþægileg og verður sífellt meira þrúgandi með hverju augnablikinu,“ segir leikhúsgagnrýnandi Víðsjár um sýninguna Þúsund ára þögn í Mengi.

Guðrún Baldvinsdóttir skrifar:

Mengi við Óðinsgötu er þéttsetið á sunnudagssýningu sviðsliðstahópsins Sóma þjóðar, Þúsund ára þögn. Leikarararnir stíga á svið og gömlum ljósmyndum er varpað upp á vegginn á móti okkur. Kolbeinn Arnbjörnsson tekur sér stöðu og stillir sér upp eins og manneskjurnar á myndunum, setur sig í spor fyrri kynslóða.

Sviðslistahópurinn Sómi þjóðar hefur sett upp fjölbreyttar sýningar á undanförnum árum en þar má helst nefna Könnunarleiðangur til Koi sem var sett upp í Tjarnarbíó árið 2016, Ég er vindurinn eftir Jon Fosse frá árinu 2012 og Gálma eftir Tryggva Gunnarsson, meðlim hópsins, árið 2011. Þessar sýningar hafa allar hlotið verðskuldaða athygli og ljóst er að hér hefur skapast vettvangur listamanna fyrir tilraunastarfssemi með texta, þemu, hreyfingar og rými.

Í verkinu Þúsund ára þögn sem nú er sýnt í Mengi vinnur hópurinn með þögnina sem viðfangsefni. Þeir Hilmir Jensson, Karl Ágúst Þorbergsson, Kolbeinn Arnbjörnsson og Tryggvi Gunnarsson standa að baki sýningunni en ein af stefnum sviðsliðstahópsins er að allir taki virkan þátt í sköpunarferlinu.

Þögnin birtist í verkinu með ýmsum leiðum, sem bókstafleg þrúgandi þögn sem hangir í loftinu, sem augnablikið rétt áður en fyrsta setningin er sögð yfir kaffibollanum og sem þögnin sem ríkir þrátt fyrir hávaða eða tal.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Leikararnir á sviðinu í Þúsund ára þögn, Hilmir, Kolbeinn og Tryggvi hafa strípað leikinn af öllu öðru en að ná nákvæmlega þeim smáatriðum sem túlka þögnina fyrir áhorfendum. Í upphafi henda þeir þögninni á milli sín eins og bolta, og hver einasta vandræðalega hreyfing, hvert andartak fær að njóta sín svo að áhorfendur finni fyrir þögninni og andrúmsloftinu í salnum á eigin skinni.

Eins og við vitum býr gríðarleg merking í þögninni, þögn segir meira en þúsund orð, og þagnir hafa að því er virðist óendalega túlkunarmöguleika.

Fyrri hluti verksins fer fram í algjörri þögn þar sem leikararnir sýna hversu mikið þeir hafa unnið með viðfangsefnið í gegnum líkamstjáningu. Framan af lítur út fyrir að sýningin verði fyrst og fremst einmitt þetta - þögn á sviði í tæpa klukkustund. En annað kemur í ljós. Einmitt þegar áhorfendur eru farnir að venjast þögninni er formið brotið upp og listamennirnir halda áfram inn í viðfangsefnið og benda á hvernig þögnin getur búið í okkur, kynslóð fram af kynslóð. Við höldum áfram með þögn forfeðra okkar í farteskinu.

Sviðslistahópurinn dregur fram þögnina sem þjóðlegt einkenni, sem hluti af samfélagi okkar. Þannig er þögnin sýnd í persónulegu ljósi en einnig hvernig hún getur verið hluti af okkur í stærra samhengi.

Þögnin er karllæg, hún er þjóðleg, hún er óþægileg og verður sífellt meira þrúgandi með hverju augnablikinu.

Rétt eins og uppáhellingin og kremkexið er hin íslenska þögn partur af þjóðarsjálfsmynd okkar. Skýrasta birtingarmynd þess er líklega sá fjöldi íslenskra kvikmynda þar sem lítið eða ekkert er talað - persónurnar líða áfram með gömlu gufuna sér til halds og trausts til þess að þögnin verði minna áberandi.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þögnin er einnig eitthvað sem við stundum tengjum því við eldri kynslóðir, því allir vita jú að pabbar geta ekki tjáð tilfinningar sínar. En erum við sem yngri erum eitthvað skárri? Því þögnin á sér ólíkar birtingarmyndir, og er kannski stundum betra að segja alls ekki neitt?

Þegar listamennirnir ákveða að takast á við þessar spurningar öðlast verkið nýja vídd og verður á sama tíma persónulegra. Örstuttum frásagnarbrotum er hent fram og þau dregin samstundis til baka. Þögnin gleypir minningarnar og í stað þess að til verði einn frásagnarþráður eða -rammi má sjá ótal sýnidæmi sem leysast upp.

Rýmið í Mengi við Óðinsgötu er eins og sniðið fyrir verk eins og Þúsund ára þögn. Mengi er listrými sem nýtist undir afar fjölbreytta listsköpun og virðist njóta sín best þegar listamennirnir ýta á mörk listarinnar í víðum skilningi - þenja út skilningarvit áhorfenda með nálægðina að vopni.

Undir lok sýningarinnar, þegar þögnin fær að víkja fyrir offflóði minninga, fyrir játningum sem hafa aldrei verið sagðar benda listamennirnir á hver máttur þagnarinnar er, og kannski hvort að hún sé svona slæm eftir allt saman? Hvort að þögnin geri okkur að því sem við erum?

Þetta eru spurningar sem aldrei eru beinlínis bornar fram í Mengi en fá að hanga í loftinu. Rétt eins og tekið er fram í sýningarskránni þá eru hér á ferð ekki bara listamenn heldur einnig rannsóknarmenn. Þannig er listin notuð til þess að taka fyrir viðfangsefni og það skoðað frá öllum hliðum. Listamennirnir skilja eftir rými til túlkunar sem gerir það að verkum að sýningin verður þéttari og skilur eitthvað djúpt eftir sig.

Hér er á ferð falleg og næm sýning og það má fullyrða að Sómi þjóðar hefur sýnt hversu langt þeir þora og að hægt sé að blanda saman tilraunastarfsemi og merkingu, án þess að útkoman verði of dulkóðuð fyrir áhorfendur.

Mynd með færslu
Halla Þórlaug Óskarsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi