Henglafjöllin eru full af giljum og dalskorningum, þaðan koma lækir og ár, heitar uppsprettur, gufuhverir og ölkeldur. Þar hafa útilegumenn, þjófar og ribbaldalýður dvalið og á árum áður þótti varhugavert að ferðast um svæðið. Lára Ómarsdóttir og Ómar Ragnarsson skoða áhugaverða staði í nágrenni Reykjavíkur í fjórða þætti Ferðastikla sem er á dagskrá RÚV 20:05 í kvöld.

Í þá daga var sagt að úrill og ógurleg skessa, Jóra að nafni, hafi búið í Henglafjöllum, og rænt ferðamenn og jafnvel drepið. Hún á meira að segja að hafa étið toppinn á Henglinum sem skýrir rofið á toppi fjallgarðsins. Ekkert fékks við Jóru ráðið fyrr en Noregskonungur gaf silfurrekna öxi til verksins. Jóra var rekinn milli herðarblaðanna, féll í Þingvallavatn og rak öxina í á eina sem nú nefnist Öxará.

En Henglasvæðið allt er dýrlegt, fjölbreytt og forvitnilegt og skessan löngu á bak og brott. Þaðan er hægt að ganga í Marardal, dal sem eitt sinn var heimili útilegumanna og síðar vinsæll samkomustaður ungra Reykvíkinga, en hefur síðan fallið í gleymskunnar dá. 

Lára Ómarsdóttir og Ómar Ragnarsson skoða Mosfellsheiði og Mosfellsdal, þar sem finna má tilkomumikla fossa og fara um Hengilssvæðið í fjórða þætti Ferðastikla sem er á dagskrá í kvöld 20:05.