Ólafur Ragnar Grímsson,forseti Íslands segir að það sé einstakt í sögu forsetakosninga að meðal frambjóðenda séu bæði annars vegar einn helsti fræðimaður landsins í sögu forsetaembættisins og um verk þess og hins vegar sá maður sem lengst hefur verið forsætisráðherra á lýðveldistímum. Staðan hafi því breyst frá því að hann sá sig knúinn til að bjóða sig fram að nýju í apríl.

Þjóðin hafði þá, þremur og hálfum mánuði eftir að hann sagði í nýársávarpi að hann ætlaði að hætta, engan frambjóðenda fundið sem eitthvert sæmilegt fylgi var við.

Þá hafi verið höfðað sterkt til hans að hann mætti ekki hlaupa frá borði á tímum þegar sögulega fjölmenn mótmæli voru við Alþingishúsið, forsætisráðherra farinn frá eftir að hafa reynt að knýja fram þingrof og ákveðið hafði verði að flýta þingkosningum. 

Ólafur Ragnar bendir á það að hann hafi sjálfur sagt á blaðamannafundinum þegar hann tilkynnti að hann ætlaði bjóða sig fram að nýju að ef þjóðin fyndi sér annan frambjóðanda tæki hann því vel. Sérhverjum þeim sem gegnir forsetaembætti væri umhugað um það. Nú hafi komið fram þessir tveir frambjóðendur sem hann nefndi, það er Guðni Th. Jóhannesson og Davíð Oddsson og hann telji að forsetakjör geti orðið með farsælum hætti.  

Ólafur Ragnar segir að aðalatriðið sé að þjóðin finni sér einstakling sem gæti gegnt forsetaembættinu. Þegar Fréttablaðið birti skoðanakönnun nýlega sem sýndi fram á mikinn stuðning við Guðna fór hann að hugsa um hvort hún væri búin að því. Þegar Davíð Oddsson, einn reyndasti stjórnmálamaður Íslands, tilkynnti um framboð hafi orðið eðlisbreyting á málum. Þegar framboð Davíðs bættist við hnigu öll rök til þess að hann sjálfur hætti við og í gærkvöld skrifaði hann yfirlýsingu um að hann gæfi ekki kost á sér til endurkjörs. 

Nánar verður fjallað um ákvörðun Ólafs Ragnars í fréttum RÚV og Kastljósi í kvöld.