Þjóðin á ekki fiskana í sjónum, fiskarnir eiga sig sjálfir, segir forstjóri HB Granda. Það sé misskilningur að halda öðru fram. Hann segir að versnandi afkoma skýrist af háu veiðigjaldi, sterkri krónu og viðskiptabanni Rússa.

HB Grandi birti í síðustu viku uppjör þriðja ársfjórðungs. Afkoma HB Granda var 3,4 milljarðar króna á fyrstu 9 mánuðum ársins sem er verri afkoma en á sama tímabili í fyrra. Munurinn er 1,3 milljarðar króna.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda, segir að þetta sé vegna þess að aflinn hafi verið aðeins minni, vegna viðskiptaþvingana Rússa og að krónan hafi verið sterk.

„Þannig að innlendur kostnaður var mjög hár í evrum, Veiðigjöldin hafa hækkað um nærri helming,“ sagði Guðmundur í tíufréttum Sjónvarps á fimmtudagskvöld.

Nú er náttúrulega HB Grandi stórt og stöndugt fyrirtæki. Hefur það ekki bara alveg efni á að greiða þessi veiðigjöld?

„Ég held að veiðigjöld, þetta er voða létt fyrir fólk í Reykjavík og fólk og þingmenn t.d. Kragans eða Suðvesturkjördæmis að hrauna endalaust yfir sjávarútveginn með veiðigjöld. Grandi er sterkt félag, Grandi getur borgað, veiðigjöldin eru 85% úti á landi,“ segir Guðmundur.

En gleymist nokkuð í þessu að það er náttúrulega þjóðin sem á fiskinn í sjónum?

„Þjóðin á ekki fiskinn í sjónum, það er mikill misskilningur. Fiskurinn á sig sjálfur í sjónum. Af því þegar hann syndir yfir aðrar lögsögur þá á hann sig sjálfur. Þjóðin hún ræður leikreglum hvernig auðlindin er nýtt,“ segir Guðmundur.