Sannkölluðu þjóðhátíðarstemning var hjá íslenskum stuðningsmönnum Liverpool í Kópavogi þegar að Robbie Fowler, einn dáðasti leikmaður félagsins, áritaði treyjur og sat fyrir á ljósmyndum í ReAct-versluninni í Bæjarlind. Löng röð hafði myndast fyrir framan verslunina áður en Fowler mætti á svæðið.
Fowler er staddur hér á landi í tengslum við árshátíð íslenska Liverpool-klúbbsins þar sem hann verður heiðursgestur. Hann ætlar jafnframt að horfa á leik Cardiff og Liverpool með íslenskum stuðningsmönnum á veitingastaðnum Spot klukkan þrjú í dag.
Fowler er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Liverpool. Hann lék á sínum tíma 266 leiki með félaginu og skoraði í þeim 128 mörk. Ferill hans var nokkuð skrautlegur - hann var til að mynda sektaður um sextíu þúsund pund fyrir að fagna marki gegn Everton með því að þykjast taka kókaín við hliðarlínuna.
Fowler lék 236 leiki með Liverpool á árunum 1993 til 2001 en þá var hann seldur fyrir tólf milljónir punda til Leeds. Þaðan fór hann til Manchester City áður en hann snéri aftur á Anfield. Hann yfirgaf félagið aftur 2007 og fór þá til Cardiff, þaðan lá leiðin til Blackburn og síðan til Ástralíu. Fowler lék 26 sinnum fyrir enska landsliðið og skoraði sjö mörk.