Forsætisráðherra segir það slæmt að þingmenn samstarfsflokksins beri deilur sínar á torg. Formaður Vinstri grænna segist þó ekki kvarta undan gagnrýni flokkssystur sinnar en segir hana ekki fara með rétt mál.
Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði í fréttum RÚV í gær að þingflokkurinn hefði síðastliðið haust falið formanni sínum að tryggja innlend yfirráð yfir HS Orku. Því hafi komið á óvart að fyrirtækið sé nú í höndum kanadísks fyrirtækis. Leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna sátu fyrir svörum að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna segir að hann og fleiri félagar hans kannist ekki við þá lýsingu sem Lilja gaf á umfjöllun þingflokksins um þetta mál. Hann segir að hún hafi fullan rétt á því að gagnrýna hann og hans störf, hann sé ekki hafinn yfir gagnrýni.
Árni Þór Sigurðsson, þingflokksformaður Vinstri grænna svaraði Lilju í fréttum um helgina og sagði að það væri lítilmótlegt af henni að ráðast gegn formanni flokksins. Forsætisráðherra segir eðlilegt að menn takist á innan flokkanna en verra sé beri menn deilur sínar á torg. Hún hafi lagt mikla áherslu á að ríkisstjórnin sýni styrk og samstöðu.