„Við getum staðfest þrjá en þeir frá Náttfara hjá Norðursiglingu voru að sjá upp í sjö blástra,“ segir Heimir Harðarson, skipstjóri, sem náði nokkuð mögnuðum myndum af búrhval á Skjálfanda. „Þetta var ansi tilkomumikið.“
Búrhvalir eru ekki algeng sjón á þessum slóðum, hann er stærsti tannhvalurinn og er yfirleitt á meira dýpi. „Þetta er frekar sjaldgæft á Skjálfandanum. Við höfum séð þetta stundum þegar við förum til Grænlands eða norður af Kolbeinsey.“
Heimir var ekki á vakt hjá Norðursiglingu heldur bara á eigin vegum. „Þó að maður sé ekki vinnunni þá hefur maður áhuga á hvölum og það er stórkostlegt að skoða þessi dýr undir seglum.“
Hann segir vertíðina annars hafa farið vel af stað því þegar hafa sést einhverjar sjö til átta tegundir, meðal annars steypireyður, háhyrningar, höfrungar og hnísa.