Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir að það hversu lítilli persónulegri ábyrgð Íslendingar finna til gagnvart loftslagsbreytingum endurspegli nokkra þætti. Þar á meðal séu hið íslenska þetta reddast viðhorf og það að stjórnvöld hafi ekki tekið á málaflokknum með neinum hætti. Hún segir að fólk verði að breyta gildismati sínu til að bregðast við loftslagsbreytingum, hætta verði að setja neyslu og auðsöfnun í fyrsta sæti.

Samkvæmt nýrri alþjóðlegri könnun eru Íslendingar almennt sannfærðari en nágrannaþjóðirnar um að loftslagsbreytingar eigi sér stað en á sama tíma finna þeir til minni perónulegrar ábyrgðar en til dæmis flestar hinar norrænu þjóðirnar.

„Ég held að það séu ábyggilega eins og með margt annað margir samverkandi þættir en ef við ættum að nefna nokkra er það ábyggilega hið íslenska þetta reddast viðhorf sem kemur þarna inn,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar. „Ég held að önnur ástæða sé að íslensk stjórnvöld hafa ekki sinnt þessum málaflokki á neinn hátt hingað til og hafa jafnvel reynt að koma sér undan ábyrgð í alþjóðlegum samningum. Það hefur ekki komið með þau skilaboð til okkar að við berum einhverja ábyrgð á þessu.“ Auk þess hafi ekki tekist að koma því til skilja hversu áríðandi málið er. 

Auður segir að hingað til virðist sem Íslendingar hafi talið að loftslagsbreytingar væru eitthvað sem gerðust úti í heimi, utan Íslands. Hún telur að það sé þó að breytast. „Ég held að fólk sé að vakna upp við það að það sé þannig sem staðan er, að við séum ekki bara slæm, heldur erum við ein af þeim verstu, við erum verstu umhverfissóðarnir. Ég held að fólk sé að gera sér grein fyrir því núna.“

Auður segir að vandinn sé stór og breytingarnar sem hann krefst séu miklar. „Við þurfum einfaldlega að breyta gildismati okkar og við þurfum að breyta því á þann hátt að vellíðan og öryggi allra jarðarbúa, umhverfi og afkoma komandi kynslóðir sé jafn rétthátt og auðsöfnun og það að hámarka efnahagslegan gróða. Hingað til höfum við verið með kerfi þar sem neysla og auðsöfnun er í efsta sæti en við þurfum algjörlega að breyta því.“