Sérðu tölustafi, fólk og hluti í lit? Finnst þér þeir ef til vill hafa sitt eigið bragð, áferð eða lykt? Þá ertu að öllum líkindum með samskynjun. Árni Gunnar Ásgeirsson, doktor í sálfræði og sérfræðingur í skynjunar- og taugavísindum, hefur rannsakað fólk sem upplifir veröldina í kring um sig á þennan hátt. Þetta eru skemmtileg fræði og einkar áhugaverð.
Rætt var við Árna og Nínu Richter sem er með samskynjun um fyrirbærið, birtingarmyndir þess, áhrif á fólk og ástæður í Samfélaginu á Rás 1.
Sterk tenging fólks og lita
„Ég var orðin frekar stálpuð þegar ég komst að því að það væru ekki allir svona. Þetta snýst um það að ég upplifi sterka litatenginu við tölur, bókstafi, orð, og ekki síst manneskjur. Mér finnst eins og allir eigi sinn einkennislit. Það er samt ekki þar með sagt að ég sjái einhverja litaða áru í kringum fólk, og þetta er alls ekki eins og einhver ofskynjun. En það er þessi sterka tenging,“ segir Nína.
Hún segir að hún hafi verið orðin fjórtán ára gömul þegar hún áttaði sig á því að ekki allir upplifðu þessar litatengingar. Sjálf segist hún tengja ákveðinn bláan lit við sjálfan sig, sem endurspeglist á heimili hennar og í fataskápnum. „Þetta litar líf mitt, bókstaflega.“
Nína fjallaði reynslu sína af samskynjun og dró upp mynd af fyrirbærinu í samhengi við listir, í útvarpsþættinum Lestinni fyrir skemmstu. Hægt er að lesa pistilinn eða hlusta á hann hér.
Tengja helst við kerfisbundna hluti
Árni Gunnar Ásgeirsson er sérfræðingur í skynjunar- og taugavísindum og hefur rannsakað fólk með samskynjun. „Það hljómar eins og Nína sé mjög dæmigerð manneskja sem upplifir samskynjanir.“ Algengast er að fólk tengi bókstafi og tölur við liti en einnig er nokkuð algengt að fólk tengi aðrar manneskjur við liti, eins og Nína gerir.
Til eru dæmi um alls konar samskynjanir þar sem fólk getur tengt ýmislegt við lykt, bragð og jafnvel áferð. „Það er ekki eins algengt og samskynjanir sem tengjast ákveðnum kerfum. Bókstafir eru mjög kerfisbundnir, vikudagar, mánuðir, tölustafir og svo framvegis. En samskynjanir sem tengjast ókerfisbundnum hlutum eins og persónuleikum og bragði eru ekki eins algengar, en þó nógu algengar til að við vitum um talsvert mörg tilvik,“ segir Árni Gunnar.
Hlusta má á viðtalið í heild í spilaranum hér að ofan.
Árni Gunnar vill endilega komast í samband við fólk með samskynjanir. Hann er með netfangið arnigunnar@unak.is.