Rithöfundurinn Hallgrímur Helgason tekur þátt í Bókmenntahátíð í Reykjavík sem nú stendur yfir og á laugardagskvöld er frumsýnd í Þjóðleikhúsinu þýðing hans á Loddaranum eftir Molière. Hallgrímur var föstudagsgestur Mannlega þáttarins og ræddi sköpunarferlið, orðmergðina og yfirlesturinn.
„Það hefur alltaf verið vandamálið hjá mér að hemja þetta flæði. Til að byrja með var þetta nánast stjórnlaust og fólk var alltaf að kvarta yfir hvað það var mikill texti í bókunum,“ segir Hallgrímur um það hvernig hann skrifar. „Ég man þegar ég gaf út aðra bókina mína, Þetta er allt að koma, sagði útgefandinn minn: „Þetta er mjög gott, þetta eru bara aðeins of mörg orð.“ En ég hef alltaf verið að reyna að ná tökum á þessu.“ Í gamla daga hafi hann alltaf skrifað það fyrsta sem kom upp í hugann en núna leyfi hann hlutum að malla aðeins áður en hann hamrar þá á lyklaborðið. „Taka seinni bylgjuna. Gefa þessu smá hik. Það er kannski aldurinn, maður er orðinn rólegri.“
Hallgrímur segir að með tímanum hafi líka yfirlestrarmenning komið til sögunnar á Íslandi, sem hafi verið af mjög skornum skammti þegar hann byrjaði að skrifa. Það fylgi því svo alltaf kvíði að fá bréfið frá yfirlesaranum. „Stundum fær maður kannnski komment á að eitthvað sem maður er búinn að vinna að í tvær vikur sé bara ekki að virka. Þá finnst manni tvær vikur farnar í súginn. En reynslan hefur kennt að það kemur oft eitthvað annað út úr því, maður verður bara að bíta í það súra epli.“
Bækur Hallgríms verða seint sagðar mínímalískar og hann játar því að eiga erfitt með að stroka út og stytta eigin texta. „Já, það er eiginlega erfiðast fyrir mig, ég er ekkert voðalega mikið í því. Ég öfunda alveg höfunda sem geta skrifað knappan texta og gefa út bækur sem eru 120 síður.“ Á hinn bóginn finnist honum líka gaman að dvelja lengi í stórum skáldsögum og hafi undanfarið rennt í gegnum stórvirki eins og Stríð og frið, Dalalíf og Vesalingana. Hann segir að í stórri sögu eins og Sextíu kílóum af sólskini sé hann alltaf tilbúinn með beinagrind að söguþræði áður en hann byrjar að skrifa. „Já, svona meginboginn er til. En síðan breytist ýmislegt á leiðinni. Eins og ferðaáætlun, þú ætlar til Balí en getur ekki flogið beint. Ég hugsa líka að það verður að vera breitt svið í bókinni; það þarf að vera allavega ein fæðing, ein eða fleiri jarðarfarir, eitt morð, fólk þarf að vera ástfangið og svo framvegis.“
Hallgrímur er einnig virtur myndlistarmiður, málar hann samhliða skrifunum? „Nei, ég vinn þetta í törnum. Tvo til þrjá mánuði í myndlist, tvo til þrjá mánuði að skrifa.“ Það sé sérstaklega gott að leggja handrit frá sér í tvo mánuði og koma að því aftur með ferskum augum. „Þá sér maður hvað hefur myglað meðan maður var frá, sker það í burtu, fær fjarlægð á skrifin.“ En hann játar þó að það sé erfitt að sinna báðum hlutverkum. „Manni finnst maður alltaf vera að svíkja hitt.“ Hann hefur verið að mála frá því í febrúarbyrjun og hyggst opna sýningu í maí. Þá hefur hann nýlokið við að þýða leikritið Loddarann eftir franska leikskáldið Molière sem verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu á laugardagskvöld þar sem Hilmir Snær er í aðalhlutverki. En hvað er svo næst á döfinni? „Það eru allir að heimta framhald af Sextíu kílóunum, ætli maður fari ekki bara í það. Það verða allavega 120 kíló þá,“ segir Hallgrímur glettinn að lokum.