„Textinn er eins og gjóskulag, maður þarf sífellt að blása ofan af honum og bursta af með pensli til að komast nær og nær“ segja gagnrýnendur Kiljunnar um Heklugjá, nýjustu bók Ófeigs Sigurðssonar.
„Rithöfundur gengur daglega yfir Skólavörðuholtið með hundinn sinn, á leið á Þjóðskjalasafnið þar sem hann les sér til um listamanninn og sérvitringinn Karl Dunganon. Á safninu vinnur stúlka með eldrautt hár og sægræn augu sem vekur ekki minni áhuga en gömul skjöl – en það er mikið verk að kynnast manneskju,“ svona hljómar kynningartexti bókarinnar Heklugjár eftir Ófeig Sigurðsson en hann hefur áður sent frá sér ljóðabækur og skáldsögur sem vakið hafa mikla athygli, meðal annars hlaut Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins 2011 og metsölubókin Öræfi hreppti Íslensku bókmenntaverðlaunin 2014.
Þorgeir Tryggvason telur sögupersónu bókarinnar, rithöfundinn vera sjálfan Ófeig. „Þessi bók er stórfljót. Hún hefst einhvern veginn með þessum manni, líklegast Ófeigi sjálfum, sem labbar með hundinn sinn á hverjum degi yfir Skólavörðuholtið. Hann býsnast yfir túristunum og sest svo niður að lesa Karl Dunganon, eins og hann ætli að skrifa bók um hann. Hann gerir það svona öðrum þræði að skrifa um Dunganon en hann afvegaleiðist hingað og þangað. Hann kemst í samband við hana Heklu, rauðhærða þokkadís með sægrænu augun, sem gengur aftur í ýmsum hlutverkum í fortíðinni sem dælist upp úr þessari sköpunargjá sem bókin er,“ segir Þorgeir um Heklugjá og vill jafnframt meina að bókin sé alls enginn vaðall. „Þó hann sé svona orðmargur og það sé þetta flæði, þá er hann aldrei tyrfinn. Þetta er allt saman svo lipurt og létt.“
Egill Helgason er ekki síður hrifinn og segir orðaflauminn úr Heklugjánni ekki trufla lesendur. „Hann er svo skemmtilegur og leiðir mann á svo skemmtilegar slóðir. Ég verð að viðurkenna að framan af vissi ég ekki hvert hann væri að fara með mig en svo ákveður maður að fljóta með og njóta ferðalagsins,“ segir Egill stjórnandi Kiljunnar.
„Þetta er ofboðslega þéttur texti sem vellur upp úr kvikunni og stundum þarf maður að líta upp til að ná andanum inn á milli en mikið ofboðslega er hann skemmtilegur,“ segir Sunna Dís Másdóttir og líkir flæði Ófeigs við bráðnandi og vellandi bergkviku. „Í bókinni er alltaf verið að tala um eldgos og gjóskulög, aftur og aftur og mér líður eins og þessi texti sé svona að maður þurfi sífellt að blása ofan af honum og bursta af með pensli til að komast nær og nær,“ segir Sunna Dís um Heklugjá Ófeigs Sigurðssonar.