„Þetta er stærsta umhverfisvá okkar tíma“

05.05.2017 - 15:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra segir að engan tíma megi missa í loftslagsmálum. Íslendingar hafi verið of værukærir hingað til. Ríkisstjórnin ætlar að láta gera aðgerðaáætlun gegn loftslagsbreytingum sem á að vera tilbúin fyrir áramót.

Auk Bjartar skrifuðu Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra, Jón Gunnarsson samgönguráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra undir samstarfsyfirlýsinguna.

Markmið aðgerðaáætlunarinnar á að vera að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt Parísarsamningnum, sem var fullgiltur síðasta haust, með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu koltvíoxíðs úr andrúmslofti. Sérstök verkefnisstjórn og sex faghópar eiga að vinna áætlunina. Einnig á að hafa samráð við þá sem hagsmuna hafa að gæta og við stjórnarandstöðuna.

Björt Ólafsdóttir segir að samstarfsyfirlýsingin hafi mjög mikla þýðingu. Mikilvægt sé að aðgerðir í loftslagsmálum séu unnar þvert á ráðuneyti.

„Þetta er stærsta umhverfisvá okkar tíma, og inn í framtíðina. Þetta er það sem öll ríki eru búin að átta sig á að er okkar stærsta ógn, mesta ógn,“

Björt segir að aðgerðir gegn loftslagsbreytingum séu ekki bara ræddar meðal umhverfisráðherra, heldur séu þær helsta málið sem rætt sé um í öllum milliríkjasamskiptum.

„Þannig að ég lít þetta mjög alvarlegum augum, og ég myndi líta það mjög alvarlegum augum ef við myndum ekki standa okkur hér á Íslandi, og ég geri það, og við höfum verið of værukær að mínu mati hingað til, en nú er áætlun um að breyta því með miklum krafti, út af því að við höfum engan tíma til þess að bíða lengur.“

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV