Sveinbjörn Indriðason, starfandi forstjóri Isavia, segir að úrskurður Héraðsdóms Reykjaness í máli bandaríska félagsins ALC, sé ekki endilega áfall. Nú sé verið að fara yfir niðurstöðu héraðsdóms með lögmönnum sem sé ekki alveg klippt og skorin. „Það eru þarna ákveðnir hlutir sem við þurfum að skoða.“

Héraðsdómur hafnaði í dag kröfu bandaríska félagsins ALC um að aflétta kyrrsetningu Isavia á Airbus-þotu félagsins vegna skulda WOW air.  Dómurinn komst jafnframt að þeirri niðurstöðu að ALC bæri ekki að borga allar skuldir WOW heldur eingöngu þær skuldir sem tengdust þessari tilteknu flugvél. 

Sveinbjörn Indriðason, starfandi forstjóri Isavia, segir að úrskurður héraðsdóms staðfesti heimild WOW til að kyrrsetja flugvélar upp í skuldir en það séu hlutir í úrskurðinum sem krefjist frekari yfirferðar og því sé erfitt að segja til um næstu skref. Lögmaður ALC sagði í kvöldfréttum RÚV að til greina kæmi að skjóta málinu til Landsréttar.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að skuld WOW við Isavia hafi numið 2,5 milljörðum króna. Sveinbjörn segir að ákvörðun um að leyfa WOW að halda áfram störfum hafi verið tekna með hagsmuni Isavia í huga. Það hafi þjónað þeirra viðskiptalegu hagsmunum að WOW air yrði áfram til og það hafi alltaf verið eitthvað handan við hornið hjá félaginu. „Sennilega hefur ALC verið í sömu stöðu og við því þar voru líka talsverð vanskil.“