„Ég er oft reiður og núna er ég reiðari en vanalega og þess vegna fór ég út í kuldann,“ segir Arnar Freyr Frostason sem var einn af þeim sem mættu á mótmælafund á Austurvelli síðdegis til að mótmæla framkomu sex þingmanna á Klaustursbarnum nýverið á upptökum sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum.
Arnar kveðst reiður yfir því að þingmennirnir tali svona um samstarfsfólk sitt og fólkið í landinu. „Að þeir taki ekki ábyrgð, ætli það sé ekki aðallega það.“
Sólrún Halldórsdóttir segist hafa mætt á Austurvöll til að sýna þeim stuðning sem þingmennirnir sex töluðu illa um á upptökunum á Klausturbar. „Við viljum ekki hafa þetta fólk, með þessar skoðanir á Alþingi Íslendinga.“
Þorgrímur Kári Snævarr segir að sér bjóði við ummælum um kvenfyrirlitningu og gegn minnihlutahópum. „Þetta er ein leið til að sýna óánægju sína. Sú sem liggur beinast við og í rauninni fín leið til að fagna fullveldisdeginum. Náttúrlega má segja að fullveldið hafi byggst á orðunum Vér mótmælum allir.“
Elísabet Brynjarsdóttir sagði að hún líði ekki slík ummæli um konur og aðra og viðhöfð voru á upptökunum.
Jóhann Bjarni Kolbeinsson fréttamaður tók nokkra fundargesti tali. Hægt er að horfa á viðtölin í spilaranum hér fyrir ofan.