„Það var svo mikið af handritum á sveimi sem fundu ekki farveg,“ segir Jón Karl Helgason um upphaf útgáfu tímaritraðarinnar 1005. Þriðji og síðasti árgangur tímaritraðarinnar kom út sunnudaginn 10/5 og nú er þetta búið, fleiri verða árgangarnir ekki!

Jón Karl á sjálfur bók í síðasta árgangnum, Herra Þráinn. Jón Karl segir frá tímaritröðinni og herra Þráni, hugleiðingu hans og tengslum við höfund sinn í þættinum Orð um bækur á rás eitt. Hann segir líka frá vinnunni við tímaritröðina sem er ævinlega á sama formi, ákveðinn fjöldi spjaldlausra bóka haldið saman með breiðri gúmmíteygju á milli tveggja pappaspjalda og skreytt með einstöku blaði í bak og fyrir, sem listamaður hefur unnið gagngert í þeim tilgangi.  

Í tímaritröðinni 1005 árið 2015 er að finna hvorki meira né minna en sjö bækur: smáesseyjusafnið Herra Þráinn eftir Jón Karl Helgason, bréfabókin  Fæðingarborgin sem Oddný Eir Ævarsdóttir færði til bókar, ljóðabókin Blindur hestur eftir Eirík Guðmundsson, nóvellan Jarðvist eftir Sigurlín Bjarney Gísladóttur,smásagnasafnið Fundur útvarpsráðs 14. mars 1984 og ... eftir Ragnar Helga Ólafsson, nóvellan Tvöfalt gler eftir Halldóru Thoroddsen og þýðing Óskars Árna Óskarssonar á örsagnasafninu Eftirherman eftir Thomas Bernhard.

Þann 10. mái 2014 voru í árgangi tímaritraðarinnar 1005  ferðasagnasafnið Styttri ferðir eftir ýmsa höfunda, nóvellan Rússneski þátturinn eftir Braga Ólafsson, ljóðabókin Hjarðljóð úr Vesturbænum eftir Svein Yngva Egilsson og þýðing Hermanns Stefánssonar á skáldsögu Adolfo Bioy Casares Uppfinning Morels.

Í fyrsta árgangi tímaritraðarinnar sem kom út 10. mái árið 2013 voru hins vegar esseyjan Bautasteinn Borgesar eftir Jón Hall Stefánsson, ljóðabálkurinn Bréf frá borg dulbúinna storma eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur og skáldsagan Hælið eftir Hermann Stefánsson