„Það er enginn endapunktur fyrirséður, þannig að þetta er alltaf áhættuatriði,“ segir Eygló Harðardóttir um listsköpun sína. „Maður er ekki að leita að einhverri ákveðinni útkomu, heldur verða verkin til í ferlinu.“

Eygló hlaut á dögunum Íslensku myndlistarverðlaunin fyrir sýningu sína, Annað rými, sem sett var upp í Nýlistasafninu síðasta haust. Víðsjá heimsótti listakonuna á vinnustofu hennar af þessu tilefni. Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að í verkunum á sýningunni hafi Eygló opnað gáttir sem áhorfandinn gat smeygt sér inn um og aukið skynjun sína og næmi á kostnað hinnar vanabundnu rökhyggju. Þarna hafi birst ástríða fyrir myndlist, óheft sköpun og djúpstæð forvitni um virkni þess óræða.

Eygló Harðardóttir er fædd 1964. Hún stundaði nám við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands og framhaldsnám við Akademie voor Beeldende Kunst í Enschede Í Hollandi. Seinna lauk hún námi í listkennslu við Listaháskóla Íslands. Bakgrunnur Eyglóar er í málverki en fljótlega fóru tvívíð málverkin að dreifa úr sér og umbreytast, verða samsett, marghliða, þrívíð. Þau tóku sér ný form sem óhlutbundnir skúlptúrar, bókverk eða innsetningar.

„Ég var í málaradeild, en hægt og rólega fór málverkið að rakna upp. Ég hætti að hugsa um málverkið sem tvívíðan flöt og fór að hugsa um það miklu frekar sem innsetningu, og svo hefur það þróast. En núna hef ég áhuga á málverkinu sem þrívíðu fyrirbæri þar sem áhorfandinn þarf að ganga í kringum verkið miklu frekar en að geta reiknað það út frá einu sjónarhorni,“ segir Eygló.

 

Vill ekki treysta á sölu sér til lífsviðurværis

Eygló segist snemma hafa tekið þá ákvörðun að treysta ekki á sölu listaverka sér til lífsviðurværis. Því hafi hún meðal annars unnið við skúringar, landvörslu og kennslu í gegnum tíðina til að eiga fyrir salti í grautinn. Auk þess hafi hún verið svo lánsöm að fá ýmsa styrki.

„Það var ákvörðun sem ég tók þegar ég kom úr námi. Ég ákvað að vinna í listinni, en sjá fyrir mér með öðrum hætti,” segir hún. „Mér fannst það bara of flókið og treysti mér ekki í það. Fólk er ólíkt og sumir geta sjálfsagt aðgreint þetta tvennt.  En ég vildi halda þessu frelsi. Það kemur auðvitað fyrir, en það er aldrei útgangspunkturinn.“

Eygló segir að henni finnist hún ekki endilega vera á hápunkti ferilsins þrátt fyrir Íslensku myndlistarverðlaunin. Hún telur þó að hún hafi þroskast sem listakona með árunum. „Það er rosalega gott að eldast í listinni. Hún verður ekkert auðveldari, langt því frá! En maður breytist, vinnan breytist, maður er að byggja upp þekkingu á þessum árum. Maður kynnist efni og aðferðum betur, maður kynnist líka bara þessum starfsvettangi betur. Maður hefur fengið ýmis tækifædri sem hlaða undir reynsluna. Þannig að já, mér finnst mjög gott að eldast í listinni.“