Guðmundur Jónatan Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu og rútubílstjóri, segir verkfallsvörðum vel tekið í þeim fyrirtækjum sem heimsótt voru í morgun. Bílstjórar vilja ekki vera í þessari stöðu, frekar en atvinnurekendur.
„Já, mjög vel tekið. Okkur var boðið í kaffi hjá Kynnisferðum í morgun. Og þegar við erum að tala um menn hafi verið ánægðir þá voru þeir mjög kurteisir og við kurteisir á móti, að sjálfsögðu,“ segir Guðmundur Jónatan sem var staddur á samstöðufundi rútubílstjóra í Vinabæ í Skipholti.
„Þetta er náttúrlega bara staða sem er komin upp vegna þess að viðræður eru strand. Við, ekkert frekar en eigendur rútufyrirtækja, viljum ekki vera í þessari stöðu. Við vonumst til að úr leysist,“ segir hann.
Guðmundur Jónatan segir hljóðið í mönnum vera býsna gott. „Við erum pínulítið vonsviknir yfir því að menn skuli ekki standa með okkur, þeir sem eru að keyra í þessu verkfalli.“
Spurður hvort það sé mikið um að aðrir séu að keyra í verkfallinu segir hann að eitthvað beri á því. „Við vorum fyrir utan eitt fyrirtæki í morgun og þar voru svokallaðir verktakar að keyra og við viljum meina að þeir séu ekki löglegir. Þeir keyra ekki undir kjarasamningi Eflingar.“
„Við höfum tekið myndir af fyrirtækjunum og skráð bílnúmer og nöfn þeirra bílstjóra sem vilja gefa upp nöfn sín. Það hefur verið nokkur misbrestur á því að menn vilji gefa upp nöfn og eins í hvaða félagi þeir eru. Síðan er þetta sent til Eflingar sem kærir þetta og kemur í réttan farveg.“