Sumt fólk er svo merkilegt, að þegar það deyr er heimili þess gert að safni. Sem dæmi má nefna Peter Paul Rubens, Tom of Finland, Tove Jansson, Fridu Kahlo, Claude Monet og okkar eigin Halldór Laxness.

Flestir þessara einstaklinga eiga það sameiginlegt að hafa búið á fleiri en einum stað í gegnum ævina (þótt það eigi reyndar ekki við um alla). Þrátt fyrir það er bara eitt hús valið til að heiðra minningu þeirra. Ég veit ekki alveg hvernig það er valið, hvort það er síðasta heimilið, húsið þar sem þau bjuggu lengst, eða bara flottasta húsið. Kannski er það staðurinn þar sem þau gerðu merkilegasta listaverkið sitt … en líklega er það bara mismunandi.

Víða um heim má finna söfn í íbúðahverfum. Í Berlín er til dæmis víða hægt að ganga inn í heim seinni heimsstyrjaldarinnar, bæði inn á heimili sem hafa verið fryst í tíma og starfsstaði sem hafa orðið að minjasöfnum. Í Louisiana-fylki Bandaríkjanna er fjöldinn allur af húsum sem áður voru í eigu vellauðugra plantekrubænda. Mörg þessara húsa er nú hægt að heimsækja. Ég heimsótti eitt slíkt fyrir nokkrum árum, það hafði verið í eigu franskrar yfirstéttarfjölskyldu. Það sem var sérstakt við þetta safn var að þrælakofarnir stóðu enn í bakgarðinum. Á flestum öðrum stöðum hafa verið eyðilagðir, því þetta er saga sem skömm er af. En þarna var hægt að sjá hvernig þrælarnir bjuggu.

Fortíðin getur verið óþægileg, en það þýðir ekki að hún sé óáhugaverð eða óspennandi. Adolf Hitler átti þónokkrar fasteignir en sumarhús hans í hlíðum Alpanna, Berghof, var kannski sá staður þar sem honum leið best. Allavega af myndum að dæma. Árið 1953 var húsið sprengt upp af yfirvöldum Bæjaralands, sem óttuðust að staðurinn myndi verða ferðamannastaður og draga að sér nýnasista. Það hefur enda orðið raunin, jafnvel þótt eftir standi aðeins rústir af heimili Hitlers. Heimili Hitlers var dæmt til að deyja, það mátti ekki verða safn og ég get ekki ímyndað mér að nokkur með réttu ráði gæti hugsað sér að búa þar.

En við vorum að tala um heimili listamanna. Kannski undirstrikar þessi gjörð – að breyta heimili þeirra í safn – staðreyndina að frægustu listamennirnir eru af ákveðinni stétt. Annað hvort efnaðir, eða mjög vel tengdir. Ég man ekki eftir mörgum íbúðum fjölbýlishúsa sem hefur verið breytt í safn. En ég veit reyndar um eina. Heimili Astridar Lindgren við Dalagatan 46 í Stokkhólmi. Þar bjó hún frá árinu 1941 þangað til hún dó, árið 2002, en fyrir 3 árum var íbúðin opnuð almenningi. Þangað er þó aðeins fimmtán manns hleypt inn tvisvar í viku, eðli málsins samkvæmt.

Samningaviðræður um fyrirkomulagið tóku langan tíma, enda held ég að húsfélög fjölbýlishúsa séu almennt séð frekar hlynnt því að íbúðirnar séu áfram notaðar sem heimili. Að breyta heimili í safn er að einhverju leyti eins og að breyta húsi í kirkjugarð. Frysta það í tíma og þar með aflífa það. Þegar við „heimsækjum“ látna rithöfunda eða listamenn, á heimili sem fryst hafa verið í tíma, erum við að heimsækja hugmynd okkar um einstakling. Ég veit nákvæmlega hvað ég vil sjá þegar ég geng inn á heimili Tove Jansson eða Astridar Lindgren. Og líklega er það það sem ég mun sjá. (Ég mun ósjálfrátt leita að staðfestingu á því sem ég held nú þegar um þær.)

Og þótt þetta séu heimili þessara listamanna, þá ætlar enginn að segja mér það að þau hafi verið opnuð eins og listamaðurinn skildi við þau. Ég mun ekki sjá neina rommflösku við rúmgaflinn eða stafla af óhreinum diskum í vaskinum. En samt – liggur minnisbók á skrifborðinu, blýantur, gleraugu… eins og listamaðurinn hafi staðið upp til að sækja sér kaffi – en horfið þess í stað.

Viljum við „afguða“ listamennina?

Heimilin eru orðin sýningar, í höndum sýningastjóra, og afkomenda listamannanna, bankabönd eða plexigler loka af ákveðin rými og hurðir loka jafnvel þeim allra viðkvæmustu. En gestir vilja kíkja inn í svefnherbergið. Sjá rúmið, leslampann, bækur á bókahillu. Ímynda sér þennan ósnertanlega listamann algjörlega berskjaldaðan. Þarna var hún, þarna svaf hún, þarna gekk hann um gólf, þarna grét hann, sofnaði, vaknaði, naut ásta og skrifaði í dagbókina sína. Gestir vilja kíkja inn í svefnherbergið, inn í viðkvæmasta kjarna heimilisins, horfa og snerta smá.

Þau voru jú bara manneskjur – en samt aðeins betri en við. Við fáum að koma heim til þeirra – en samt bara smávegis.

Þegar listamenn gera eitthvað af sér, eða gera eitthvað siðferðislega vafasamt, þá syngur aðdáendakórinn: „Aðskilja skal persónu listamanns og list hans ... “ En að hrúgast heim til hans að honum látnum … það er annað mál. Hvers vegna viljum við þá fara heim til þessa fólks? Viljum við sjá hversdagsleikann? Við finnum hann ekki þarna. Viljum við „afguða“ listamanninn, taka hann niður af einhverjum stalli? Ólíklega. Við finnum samt örugglega fyrir sterkari tengingu, eftir heimsóknina.

Eða viljum við halda í manneskjuna? Erum við hrædd við að taka til eftir hana, því við viljum ekki að hún hverfi úr veröld okkar? Hún var kannski samferðarmaður okkar, en þegar eignir hennar eru komnar á uppboð eða á víð og dreif – ekki lengur raðað eftir hennar höfði – þá er búið að leysa hana upp. Eina sem stendur eftir er minningin – og verkin.

Minningunni treystum við ekki.

Verkin höfum við frelsað frá listamanninum.

Að breyta heimili í safn er eins og að breyta húsi í kirkjugarð. Og flestir þessara einstaklinga liggja nú í kirkjugarði, þar sem hægt er að heimsækja legstein og skilja eftir blóm. En legsteinninn segir ekkert um einstaklinginn. Og legsteinn býr til fjarlægð. Þegar amma og afi eru bæði dáin og húsið þeirra selt, þá hefur myndast gjá. Minningin um heimilið lifir, um andrúmsloftið, en hún dofnar smám saman. En að ganga inn á heimili listamanns er eitthvað annað. Andrúmsloftið er ímyndað. Fjarvera listamannsins er áþreifanleg, í gegnum vitneskjuna um að hán var þarna. Og á sama tíma erum við nær en nokkru sinni fyrr.

Þurrkar út sögunar

En alveg eins og listamaðurinn er ósnertanlegur eru hlutirnir, hversdagslegir hlutir eins og kaffikanna og blómapottar, orðnir ósnertanlegir. Við erum ekki stödd í fortíðinni, við erum að horfa á framsetningu á fortíðinni. Við erum í leikhúsi. Herbergin hafa fengið hlutverk. Hér svaf hún. Hér vann hún. Hér borðaði hann og hér – hér horfði hann á hafið. Heimilið verður heilagt því við ímyndum okkur að þetta hafi verið staður sem einstaklingurinn valdi sér og fannst fullkominn. Skapaði sjálfum sér. Verkin sem hann skildi eftir eru skáldskapur og nú er raunveruleiki hans orðið leiksvið. Ekki bara erum við að lesa húsin með augum samtímans heldur með skoðun okkar – aðdáun, áhuga, fyrirlitningu, ást – á listamanninum.

En það sem ég hugsa ekki á svona heimilissöfnum er – hvað ef þetta hús hefði fengið að vera heimili áfram? Mér finnst nefnilega eitthvað svo skrýtið við að frysta heimili í tíma. Á einhvern hátt þurrkar það út alla sögu sem átti sér stað þar áður. Söguna sem ekki var nógu merkileg til að vera fryst – og nú stendur íbúðin, eða húsið, sem minnisvarði um eina ákveðna manneskju sem bjó þar um stund. Allt hitt er horfið í gleymskunnar gjá.

Öll hús eiga sér sögu og anda. Ef þú býrð ekki í nýbyggingu hafa einhverjir búið þar sem þú býrð á undan þér. Og jafnvel aðrir á undan þeim. Líklega mun líka einhver búa þarna eftir þinn dag.

Hús sem hýsir heimili er lifandi, hefur tifandi anda og hjarta sem slær.  

Og sögu sem heldur áfram.