„Ég flaug til Beira í dag í fyrsta sinn síðan fellibylurinn skall á borginni. Við mér blasti hamfarasvæði. Þök hafa farið af 80-90% húsa og innviðir úr leir og reyr hafa flast út. Vegir eru ónýtir og risavaxin tré hafa rifnað upp með rótum. Það rignir enn og það er hvorki rafmagn né drykkjarvatn. Harmleikurinn er rétt að byrja.“ 

Þessa orðsendingu fékk Hafdís Hanna Ægisdóttir í pósti frá Colleen Begg vinkonu sinni stuttu eftir að fellibylurinn Idai gekk á land í Mósambík þann 14. mars síðastliðinn.

Í pistli í þættinum Samfélagið á Rás 1 fjallar Hafdís Hanna um afleiðingar fellibylsins á íbúa Mósambík.

Upplausn og hræðsla eftir fellibylinn

Colleen býr ásamt  eiginmanni og tveimur börnum á afskekktu svæði í norðurhluta Mósambík. Þau hjónin fluttu til landsins frá Suður Afríku fyrir 17 árum og fara fyrir 100 manna teymi heimamanna sem vinnur að því að vernda Niassa náttúruverndarsvæðið fyrir veiðiþjófum, en svæðið er eitt afskekktasta verndarsvæði Afríku. Þau vinna hörðum höndum við að byggja upp færni og þekkingu fólksins sem býr á svæðinu og leggja mikið upp úr samvinnu og samhjálp.

Mikil  upplausn og hræðsla varð í teyminu hennar Colleen í hamförunum. Fólk vissi ekki hvort fjölskylda og vinir á flóðasvæðunum væru óhult. Þau sáu fram á mikla óvissu og erfiða tíma. 

110 manns í tjaldbúðum

Þegar fellibylurinn gekk á land í suðaustanverðri Afríku fór vindhraðinn upp í 195 km/klst. Mikið úrhelli fylgdi storminum sem olli flóðum og skriðuföllum, eyðilagði uppskeru, rústaði híbýlum manna, vegum og öðrum innviðum. Fjöldi fólks er á hrakhólum, um 110 þúsund manns halda til í tjaldbúðum í Mósambík og um þúsund manns hafi látið lífið í löndunum þremur; Mósambík, Malaví og Simbabve. Fjöldamörg börn hafa misst foreldra sína eða hafi orðið viðskila við þau vegna ringulreiðarinnar í kjölfar fellibyljarins. Sum barnanna eru mjög ung, fjögurra og fimm ára – jafnaldrar sonar míns.

Alvarleg áhrif á menntun barna og heilsu íbúa

Hafnarborgin Beira, fjórða stærsta borg Mósambík, varð verst fyrir barðinu á fellibylnum – 80% heimila og innviða borgarinnar eru gjörónýt. Meira en 2600 skólastofur hafi orðið eyðileggingunni að bráð auk 39 heilsugæslustöðva. Heimamenn segja að afleiðingarnar verði alvarlegar fyrir menntun barnanna, aðgang að heilsugæslu og andlega heilsu fólks.  

En Idai er ekki eini kröftugi fellibylurinn sem herjað hefur á landsvæði á jörðinni undanfarin misseri. Við heyrum ítrekað fregnir af fellibyljum sem eru miklir af styrk og skella á landsvæði með miklum þunga með tilheyrandi afleiðingum. 

Hvað getum við gert?

En eru fellibyljir af þessari stærðargráðu ekki bara náttúrleg fyrirbrigði sem skollið hafa á land alla tíð með tilheyrandi eyðileggingu og manntjóni? Er eitthvað sem við getum gert? 

Fellibylur er djúp og kröpp lægð sem myndast í hitabeltinu og fá orku sína úr hlýju hafi. Þegar yfirborðssjórinn hitnar, eins og gerst hefur á síðustu árum og áratugum vegna loftlagsbreytinga, þá hafa fellibylirnir úr meiru að moða. Og þá er voðinn vís. Það kann ekki góðri lukku að stýra að taka fyrir hendurnar á móður náttúru og krukka í veðrakerfum jarðarinnar með því að dæla gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið eins og enginn sé morgundagurinn. 

Öfgafyllri fellibyljir

Afleiðingin er til að mynda aukinn styrkur fellibylja; bæði þeirra sem eiga upptök sín á Suður-Kyrrahafi og Indlandshafi (eins og fellibylurinn Idai) og fellibylja með upptök sín á Atlantshafi eins og þeir sem skella á eyjum Karíbahafsins, Mið-Ameríku og sunnanverðum Bandaríkjunum. Aðrar afleiðingar eru t.d. auknir þurrkar, aukin og kraftmeiri úrkoma og hærra hitastig á landi og sjó.

Hverjir bera ábyrgð?

En berum við öll sömu ábyrgð á ástandinu? Eru einhver ákveðinn landsvæði eða samfélög sem verða hvað verst fyrir barðinu á þessum ósköpum? 

Hinn svokallaði G20 hópur sem samanstendur af 19 iðnríkjum, ásamt fulltrúum Evrópusambandsins, bera samanlagt ábyrgð á yfir 80% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum í dag. Vissulega getum við sem búum á Vesturlöndum búist við að verða fyrir áhrifum loftslagsbreytinga – við erum farin að sjá breytingarnar nú þegar. En áhrifin á okkur verða þó ekkert í líkingu við áhrifin sem loftslagsbreytingar munu hafa á íbúa Afríku,  álfunnar sem aðeins ber ábyrgð á innan við 4% af losuninni á heimsvísu.  

Berskjölduð heimsálfa

Þeir sem minnstu ábyrgðina bera – verða fyrir mestum skakkaföllum. Það felst ekki mikið réttlæti í því.  

Afríka er berskjölduð fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. Landbúnaður telur um 30-40% af vergum þjóðartekjum í álfunni og um 80% fólks er háð landbúnaði til að hafa í sig og á. Alls staðar í álfunni hefur  fólk misst landbúnaðarsvæði vegna flóða, óvæntra storma og lengri þurrkatímabila. Aðgangur að góðu drykkjarvatni er mjög af skornum skammti. Fjölskyldur missa heimili sín og lífsviðurværi. 

Hverju getum við búist við? 

Í Afríku þykir líklegt að áframhaldandi hækkun á hitastigi jarðar auki líkur á þurrkum í sunnanverðri og í miðhluta álfunnar en auki líkur á flóðum í henni austanverðri. Þetta myndi leiða til minni uppskeru og hærra matvælaverðs. Áhrif geta orðið skelfileg, sér í lagi þegar um er að ræða fátæk lönd þar sem fólk stundar sjálfþurftarbúskap og þolir illa aukna þurrka og/eða flóð. Með auknum loftslagsbreytingum getur sá árangur sem nú þegar hefur náðst í heilsuverndarmálum og menntamálum orðið að engu. Með auknum hitabylgjum og flóðum fylgja því miður oft sjúkdómar og dauði. 

Kólera og malaría í kjölfar Idai

Og það var nákvæmlega það sem gerðist í kjölfar fellibyljarins Idai. Í Mósambík hefur kólera breiðst út með yfir þúsund staðfestum tilfellum. Einnig er aukin hætta á að smitast af malaríu og menn hafa áhyggjur af því að mislingar og niðurgangspestir dreifi sér í tjaldbúðunum sem settar hafa verið upp til að hjálpa fólki í neyð.  

Til að koma í veg fyrir að náttúruhamfarir líkt og fellibylji af þeirri stærðargráðu sem við sáum í suðaustanveðri Afríku, hitabylgjur og ítrekuð þurrkatímabil haldi áfram að herja á samfélög manna – þá verðum við þjóðir heims að taka höndum saman og beita öllum ráðum til að bægja loftslagsvánni frá. 

Græðum, drögum úr og ofnýtum ekki

Að sama skapi þurfum við að lágmarka skaðann af náttúruhamförunum með því að minnka skógarhögg, ofnýta ekki landið og græða upp vistkerfi sem eru nú þegar illa farin.  

Það er nefnilega þannig að land í slæmu ástandi vegna ósjálfbærrar landnýtingar og landeyðingar, er síður í stakk búið að takast á við náttúruhamfarir líkt og fellibyli. Í austurhluta Rusitu dalsins í Simbabve fór aurflóð af stað í kjölfar fellibyljarins Idai og úrhellisins sem honum fylgdi. Aurflóðið fór á ógnarhraða niður dalinn og tók með sér 160 hús. Fjölmargir grófust undir flóðinu og er nú saknað. Þorpin Rusitu og Chimanimani eru bæði staðsett í hálendi Simbabve þar sem úrkoma er allra jafna mikil. Ef landnýtingin á svæðinu hefði ekki verið jafn áköf og raun ber vitni á síðustu áratugum með tilheyrandi skógarhöggi og annarri ósjálfbærri landnýtingu – þá hefði eyðileggingin orðið minni og manntjónið sömuleiðis. Náttúruleg geta landsins til að taka við úrkomunni hefur minnkað. Gróðurvana landið getur ekki tekið við henni og hún rennur því sem aurflóð niður hlíðarnar.

Á stórum landsvæðum hefur skógur verið hogginn í eldivið, viðarkolsframleiðslu og til ólöglegrar sölu úr landi. Skógarhöggið hefur aukið á landeyðingu og skriðuföll. Fólk sem hefur búið lengi á svæðinu segir að aukin landnotkun á síðustu 24 árum hafi alveg örugglega haft áhrif á aukna tíðni skriðufalla á svæðinu. Híbýli manna hafa verið byggð hærra og hærra uppi í bröttum hlíðum fjalla. Ólíkt þorpunum Rusitu og Chimanimani þá þoldi fjallasvæði norður af Chimanimani ágang fellibylsins en það fjallasvæði er þakið náttúrlegum skógi og graslandi. 

Gróðurhulan dugði ekki til

Svipaða sögu er að segja frá frá Mósambík. Flóðin urðu mun stærri en ella því landið – sem hafði verið svipt allri gróðurhulu gat með engu móti tekið við vatninu og miðlað því.  

En af hverju er ég að ræða um hörmungar í öðrum heimsálfum. Eigum við ekki nóg með fréttir af  gjaldþroti WOW, Brexit, þriðja orkupakkanum, kjarasamningum og að takast á við gráan hversdagsleikann? Eigum við líka að missa svefn yfir fólki sem býr hinum megin á hnettinum? 

Enn tími til stefnu

Þó ég vilji síður en svo gera lítið úr þeim áskorunum sem við tökumst nú á við hér á landi, þá finnst mér þyngra en tárum taki að vita af munaðarlausum og veikum börnum sem geta enga björg sér veitt og sitja í súpunni vegna neyslu og óhófs okkar á Vesturlöndum. 

Þeir sem minnstu ábyrgðina bera – verða jú fyrir mestum skakkaföllum. 

En það er engin ástæða til að örvænta. Við höfum enn tíma til að snúa þróuninni við og það er ástæða til að vera bjartsýn. Við vitum hvert ástand vistkerfa jarðarinnar er og við vitum hvað við þurfum að gera. Nú er komið að aðgerðum.