Þarf ekki lengur að láta bera sig ofan í

14.06.2017 - 21:54
Aðgengi fyrir hreyfihamlaða stórbatnaði í sundlaug Egilsstaða í dag þegar færanlega stólalyfta var tekin í notkun.

Lyftan er gjöf frá Soroptimistaklúbbi Austurlands og kostar með uppsetningu rúmlega eina og hálfa milljón. Með henni geta þeir sem nota hjólastól komist hjálparlaust ofan í sundlaug, vaðlaug og heitan pott en lyftunni er hægt að stjórna með fjarstýringu.

Sjálfsbjörg stendur nú fyrir átaksverkefninu Sundlaugar okkar allra þar sem hreyfihamlaðir heimsækja sundlaugar og benda á það sem hindrar aðgengi. Samtökin fagna úrbótunum á Egilsstöðum og segja slíkar lyftur æskilegar í öllum sundlaugum.

Fram kom í máli Guðna Sigmundssonar, formanns Sjálfsbjargar á Mið-Austurlandi, þegar lyftan var tekin í notkun í dag að tilgangurinn með úttektinni á aðgengi í sundlaugum sé ekki síst að hreyfihamlaðir geti kortlagt hvaða sundlaugar séu aðgengilegar. Ekkert sé eins vont og að vera kominn á staðinn en þurfa að hverfa frá vegna þess að aðgengi sé í ólagi.

Fanney Sigurðardóttir var fengin til að prófa lyftuna í dag en hún sagði í samtali við fréttastofu að ósjaldan hefðu vinir hennar þurft að bera hana ofan í heita pottinn.

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV