Stjórnvöld þurfa að setja fjármagn í orkuskipti í íslenskum höfnum, segir höfundur skýrslu um orkuskipti. Iðnaðarráðherra segir að það verði mikið framfaraskref, þegar skip geta legið við bryggju án þess að brenna olíu.

Eitt af þeim verkefnum sem stjórnvöld sinna í tengslum við aðgerðir í loftslagsmálum eru orkuskipti í íslenskum höfnum. Í dag var kynnt skýrsla með aðgerðaáætlun þar um. 

„Markmiðið er að lágmarka vélartíma, það er að segja þar sem ljósavélar ganga á meðan skipin liggja í höfn. Það þýðir minna af jarðefnaeldsneyti sem brennt er, og á sama tíma samdráttur í losun á gróðurhúsalofttegundum og annarri mengun,“ segir Anna Margrét Kornelíusdóttir, rannsóknamaður hjá Íslenskri nýorku, og annar skýrsluhöfunda.

Ein helsta niðurstaða skýrslunnar er sú að staða raftenginga til skipa í höfnum er nokkuð góð hér á landi þegar litið er til lágspennutenginga, en hins vegar er skortur á háspennutengingum sem eru nauðsynlegar stærri skipum. 

„Og lykilatriðið til þess að við getum haldið áfram í orkuskiptum á stærri stærðargráðu er fjármögnun, helst frá stjórnvöldum,“ segir Anna. 

Telurðu raunhæft að ráðast í þær framkvæmdir sem þarna eru nefndar? „Þær eru auðvitað mjög misjafnar, misstórar og sumt er hægt að ráðast í fljótt og vel, annað þarf að kortleggja mun betur, svo eru þetta alltaf spurning um forgangsröðun fjármuna,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. „Og ríkisstjórnin hefur gert ráð fyrir töluverðum fjármunum í orkuskipti en við erum fyrst og fremst að leggja áherslu á orkuskipti í samgöngum vegna þess að það er hægt að ná til margra og ávinningurinn er mikill og það er mikill vilji bæði hjá neytendum og fyrirtækjum.“

Nú koma hingað skemmtiferðaskip sem eru á stærð við heilu borgirnar, er eitthvað hægt að hjálpa þeim með rafmagni? „Sem stendur eru engar háspennutengingar á Íslandi sem anna þessum skipum. En þetta er atriði sem við erum að skoða í framtíðinni. En við leggjum áherslu á það í okkar skýrslu að við tryggjum fyrst að við sinnum íslenska skipaflotanum, og svo má skoða frekar stærri tengingar,“ segir Anna. 

„Auðvitað, ef við getum skref fyrir skref byggt upp þannig innviði að þessi skip geti legið í höfn án þess að brenna olíu, það væri og verður mikið framfaraskref,“ segir Þórdís.