Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur hefur gefið út nýja bók, smásagnasafnið Ástin Texas. Hún segist hafa verið gift skáldsagnaforminu undanfarin tuttugu ár og hafi fundið þörf fyrir því að vinna í knappari frásögnum. „Þar sem maður gæti farið beint í stemninguna og dýptina og þyrfti ekki að vera að plotta mikið.“

Þetta eru efnismiklar sögur sem hefðu hæglega getað orðið skáldsögur en Guðrún Eva segist einfaldlega ekki hafa langað að teygja lopann. „Mig langaði að hafa þetta knappt, ég er búinn að lesa svo mikið af smásögum og mér fannst það ný áskorun að skrifa styttri sögur þar sem hvert einasta orð skiptir máli.“

Hún lenti þó í vændræðum með síðustu söguna í bókinni. „Ég var yfir mig hrifin af persónunum og langaði ekkert að kveðja þau, þá langaði mig að fara að teygja þetta á langinn. En ég bara stillti mig um það.“

Titill bókarinnar – Ástin Texas – vekur forvitni. Hún heitir í raun í höfuðið á stærstu aukapersónu bókarinnar, segir Guðrún Eva, Austin frá Texas, mormónatrúboða sem gengur í gegnum sögurnar.

Guðrún Eva segir bókina helberan skáldskap, ólíkt síðustu skáldsögu hennar Skegg Raspútíns sem byggði á raunverulegu fólki og fór ekki dult með það. „En Austin frá Texas, mormónatrúboða, hitti ég samt í Mjódd — raunverulega. Hann er til. Ég vingaðist við þessa mormóna, það er ekki hægt að skrifa um þá án þess að kynnast þeim af því að þeir eru bara svo rosalega framandi. Hins vegar gerði ég úr honum skáldsagnapersónu, ég legg honum orð í munn.“

Guðrún Eva segist hafa liðið eins og hún hafi verið á hálum ís þegar hún skrifaði sögurnar, en í þeim grefur hún undan þeirri hugmynd að fólk geri sér upp skoðanir eftir því hvaða samfélagshópi það telur sig tilheyra. „Ég fann fyrir ótta,“ segir hún og efaðist um að hún mætti skora vissar skoðanir á hólm. „En í gegnum það að finna það þá varð ég einmitt einarðari í því að láta þetta fara og gera dálítið í því að skora þetta á hólm. Þetta er óhugnanlegt – að það sé búið að koma upp skoðanasettum fyrir einhverja samfélagshópa.“ 

Egill Helgason ræddi við Guðrún Evu Mínervudóttur í Kiljunni. Þáttinn í heild má sjá í spilaranum.