Í dönsku þáttunum Mad magazinet rannsaka þáttarstjórnendur matinn sem við borðum dags daglega. Þeir skyggnast einnig inn í framtíðina og velta fyrir sér hvaða fæða verði á borðum framtíðarfólks. Þang er þar nefnt sem vistvænn og aðgengilegur valkostur sem gæti orðið vinsæll á borðum framtíðarsælkera.

Álag á vistkerfi veldur því að fæða sem nútímafólki þykir nýstárleg gæti orðið hversdagsmatur í framtíðinni. Þar má nefna auk þangsins ýmis skordýr, sér í lagi engisprettur og maðka. Sameinuðu þjóðirnar áætla að neysluþörf aukist um 70% fram til ársins 2050 og því reyni á að neytendur séu frumlegir að nýta auðlindir jarðar sem best.

Fjöldi tegunda og allar ætar

Kristian Skjöld Ottesen elskar þang og vill fá Dani til að borða meira af því, en við strendur Danmerkur vaxa um 400 tegundir þangs og eru þær allar ætar þó að sumar séu að sögn Kristians hvorki bragðgóðar né lystugar. Hann segist sannfærður um að Danir muni borða meira þang í framtíðinni vegna þess að þangið sé frábær fæða. „Ég er viss um að við getum vanið fólk á þetta, börn líka.“

Hann bendir á sagþang sem góðan valkost. „Það er mjög skemmtileg nafngift því það líkist sög, þannig að jaðrarnir minna á sagartennur.“ Hann segir sagþangið vera eitt bragðbesta þangið. „Það er örlítill hnetukeimur af því sem flestir kunna vel að meta,“ segir Kristian. Hann útskýrir að í Danmörku vaxi sagþangið oft á svipuðum stað og blöðruþang.

Sagþang á Suðurlandi

Á vefnum Fjaran og hafið kemur fram að „við Ísland vex sagþang eingöngu við Suður- og Suðvesturland eða á svæðinu frá Vestmannaeyjum, umhverfis Reykjanes og inn í Hvalfjörð. Það vex einungis í fremur skjólsælum fjörum. Sagþangið vex á klöppum eða stórum steinum neðst í fjörunni, neðan klóþangsins en ofan við rauðþörungabeltið sem er við neðri mörk fjörunnar.“ Kristian útskýrir í þættinum að það sem geri þang bragðgott sé umami-bragðið sem oft er kallað fimmta bragðið. „Þú getur líkt því við blöndu af tómötum, sjó og kjöti,“ segir hann. „Það er það sem þangið getur gefið í matargerðina.“

Við höfum gleymt þanginu

Hvað hollustu varðar inniheldur þang vítamín og steinefni, náttúrusölt og fleira. „Það er ýmislegt þar sem við höfum þörf fyrir,“ segir hann. „Það inniheldur 100 sinnum meira K-vítamín en grænkál.“ Hann bætir því við að Norðurlandabúar hafi alltaf borðað þang en það hafi í seinni tíð gleymst sem fæðutegund. „Landbúnaður hefur þróast svo mjög að við höfum gleymt þanginu. Þetta varð fátækrakostur og því viljum við breyta.“

Tillaga að framreiðslu er að steikja þangið, gerja það og blanda það sesamolíu og laga þannig þangsalat. Í þættinum var prófað að bera fram þangsalat fyrir börn í sjöunda bekk grunnskóla og að þeirra sögn minnti rétturinn á sultaðar gúrkur.

Þátturinn er aðgengilegur í spilara til 18. desember. Smellið hér til að horfa á þáttinn í heild sinni.