Þakkaði Pútín og hótaði Norður Kóreu

10.08.2017 - 23:50
National Security Adviser H.R. McMaster, left, and Vice President Mike Pence listen as President Donald Trump speaks to reporters after a security briefing at Trump National Golf Club in Bedminster, N.J., Thursday, Aug. 10, 2017.  (AP Photo/Evan Vucci)
 Mynd: AP Images  -  RÚV
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, kom víða við þegar hann ræddi við fjölmiðla í Bedminster í New Jersey í kvöld. Hann hótaði ekki bara Norður Kóreu heldur þakkaði líka Rússlandsforseta sparað bandarísku þjóðinni umtalsverða fjármuni. Og lýsti því yfir að hann hefði verið að gera bandaríska hernum greiða þegar hann bannaði transfólki að gegna hermennsku.

Breska blaðið Guardian tók í kvöld saman helstu yfirlýsingar Bandaríkjaforseta á blaðamannafundinum. Þar bar hæst málefni Norður Kóreu en Trump sagði að Norður Kóreumenn mættu vera „mjög, mjög hræddir.“

Hann kvaðst vilja vera enn harðari í horn að taka í samskiptum sínum við landið. Trump hefur þegar sagst ætla að mæta þeim með „eldi og brennisteini“ vegna kjarnorkuáætlunar landsins en í kvöld sagði hann að sú viðvörun hefði jafnvel ekki verið nógu sterk.

Guðlaugur Þór Þórðarson sagði deilu Bandaríkjanna og Norðu Kóreu grafalvarlega.

Trump sagðist vera ósammála Barack Obama, forvera sínum í starfi,  um að loftslagsbreytingar væru ein helsta ógnin við heimsbyggðin- það væri kjarnorkuváin. „Ég vil að kjarnorkuvopn heyri sögunni til og að við, Kína, Rússland og Pakistan losum okkur við þau.  En þangað til að það gerist verða Bandaríkin það öflugasta á þessu sviði í heiminum.“

Trump ræddi einnig þá ákvörðun Rússlandsforseta að senda 755 starfsmenn bandarísku utanríkisþjónustunnar úr landi. „Ég vil bara þakka honum. Við höfum verið að reyna að skera niður og spara og hann lét þarna fólk fara sem við losnum núna við af launaskrá.  Þessi ákvörðun sparaði okkur mikla fjármuni.“

Pútín Rússlandsforseti sendi 755 bandaríska diplómata úr landi í sumar.

Trump var inntur álitis á Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra sínum. Washington Post greindi frá því í vikunni að FBI hefði gert húsleit á heimili hans vegna rannsóknar á afskiptum Rússa af forsetakosningunum í fyrra. „Ég þekki hann en hef ekki talað við hann lengi. Hann var bara mjög stutt hjá okkur. Húsleitin kom mér mjög á óvart. Þeir gera þetta ekki oft. Mér hefur alltaf fundist hann heiðarlegur náungi og mér fannst það frekar hart að fara svona snemma heim til hans. Kannski var fjölskyldan þarna, “ sagði Trump.Forsetinn var sömuleðis spurður út í þá ákvörðun sína að banna transfólki að gegna herþjónustu.  „Ég ber mikla virðingu fyrir samfélagi þeirra og ég fékk mörg atkvæði frá þeim í kosningunum en þetta hefur verið mjög ruglingslegt og flókið fyrir herinn. Ég held að ég hafi verið að gera honum greiða með þessu.“

Talið barst einnig að Robert Mueller, sem fer með rannsókn á áðurnefndum afskiptum Rússa af forsetakosningunum. Trump hefur lýst yfir efasemdum um hlutleysi Muellers og að vinátta hans við James Comey, fyrrverandi forstjóra FBI, sé truflandi. „Ég hef ekkert íhugað að víkja honum úr starfi. Ég hef bara lesið um það í fréttum hjá ykkur að ég sé að hugsa um slíkt. Ég er ekki að fara víkja neinum úr starfi. Ég vil bara að menn haldi sínu striki.“

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV